Þegar ég sagði fólki fyrst um sinn frá breyttu mataræði mínu nýlega fékk ég ýmis neikvæð svör: “Þú mátt nú varla við því”, “Já, af því að þú ert svo feit núna..” og með fylgdi dæmandi augnaráð. Þetta eru einungis dæmi, en nánast öll voru þau í þessum dúr. Mér blöskraði við þessum viðbrögðum enda hefði ég heyrt sama fólk segja við aðra aðila í sömu stöðu; “Flott hjá þér!” á verulega hvetjandi máta. Munurinn fólst í þyngd hinna aðilanna. Ég var og er í kjörþyngd, en þeir voru það ekki.
Það getur verið þreytandi að þurfa í sífellu að vera yfirheyrð um breytt mataræði mitt líkt og ég sé mætt undir dómstól og þurfa að koma með hinar og þessar útskýringar fyrir því afhverju ég sé að borða hollt. Eins og það að grennast sé eina ástæðan til að huga að mataræðinu.. Ég hef verið að takmarka það að segja fólki að ég sé hætt að borða óhollt einmitt út af þessu, og líður eins og ég sé í felum. Ég verð reið þegar ég fæ þessi viðbrögð. En ég hef gilda ástæðu. Þegar neikvæðu viðbrögðin vellast upp þá byrja örlitlar hugsanir að detta inn. “Hvað ef þau hafa rétt fyrir sér, ég þarf ekki á þessu að halda”.
En ástæða breytts mataræðis míns var hins vegar almenn vanlíðan, orkuleysi og síþreyta. Breytt mataræði var byrjunarskref í því að bæta heilsu mína og ég tel mig finna mikinn mun. Bæði andlega og líkamlega. Að útskýra þetta fyrir (að svo er virðist þröngsýnu) fólki getur verið erfitt, enda mjög persónulegar ástæður. Og fyrir utan það, þá ætti einfaldlega enginnn að þurfa að réttlæta sig á neinn hátt, enda er almenn hollusta góð fyrir alla aðila, hvort sem þeir eru í yfirþyngd eða kjörþyngd. Þ.e. svo lengi sem farið er að þessu á heilbrigðan máta.