Þarmaflóran hefur áhrif á skap og líkamsþyngd

Rannsóknir sína í auknum mæli hversu mikilvæg þarmaflóran er heilsu okkar. Sýnt hefur verið fram á að fjölbreytileiki baktería í þörmum hefur ekki aðeins áhrif á líkamlega heilsu okkar heldur einnig andlega heilsu. Birna Ásbjörnsdóttir, sem er með meistaragráðu í næringarlæknisfræði frá Surreyháskóla, segir hollan og lítið unnan mat vera bestu leiðina til að viðhalda heilbrigði þarmaflórunnar.

 

Þeir sem eru með færri bakteríur í þörmunum og minni fjölbreytni eru líklegri til þess að vera of þungir eða með ákveðin krónísk vandamál. Því fjölbreyttari þarmaflóra, því minna af vandamálum,“ segir Birna Ásbjörnsdóttir næringarfræðingur sem vinnur um þessar mundir að meistarverkefni sem snýr að meltingarveginum og þarmaflórunni.

Áhrif á taugakerfið

Birna segir allar nýjustu rannsóknir benda til þess að fjölbreytileiki þarmaflórunnar jafnist á við heilt líffæri. „Þarmaflóran er stór hluti af ónæmiskerfi líkamans og hún hefur einnig mjög mikil áhrif á taugakerfið og þar með geðheilsu og líðan. Rannsóknirnar eru enn margar hverjar enn á frumstigi en það er samt farið að sýna fram á þetta samband og það eru stórar fréttir. Við vitum líka fyrir víst að þarmaflóran hefur mikil áhrif á hverskyns bólgur og sýkingar.“

Fæðumst án flórunnar

„Það sem gerir þetta líffæri öðruvísi en önnur er að það er áunnið, því við fæðumst án þarmaflóru,“ segir Birna. „Í fæðingunni byrjum við að fá í okkur bakteríur sem búa svo um sig í meltingarveginum til frambúðar. Fyrstu þrjú ár ævinnar eru mjög krítískur tími sem hefur mikil áhrif á það hvernig þessar bakteríur þróast og vaxa. Ef við t.d fáum mikið af sýklalyfjum á þessum árum getur það haft mikil áhrif á heilsu okkar til frambúðar. Auðvitað eru sýklalyf mjög góð og nauðsynleg en ofnotkun er áhyggjuefni því þau drepa bakteríur í þörmunum sem eru okkur nauðsynlegar og skilur okkur því eftir í ákveðnu ójafnvægi. Nýjustu rannsóknir sýna að það eru tengsl á milli lélegrar þarmaflóru og t.d ofnæmis og astma.“

Mikilvægt að borða lítið unnar matvörur

Birna segir hollt fæði skipta sköpum fyrir þarmaflóruna. „Ef við borðum fæði sem er ekki næringarríkt þá nærum við sveppi og óæskilegar örverur sem geta valdið bólgum og jafnvel öðrum sjúkdómum. Þess vegna þurfum við alltaf að huga að því þegar við borðum hvaða jarðveg við erum að rækta innvortis. Óhollur matur veikir kerfið okkar. Það er því ekki bara það að við förum á mis við góða næringu þegar við borðum óhollt, heldur erum við þá líka að næra það sem við viljum ekki næra. Við erum þá að næra veikleika okkar.“

birnaasbjornsdottir
Höfundur greinar er Birna Ásbjörnsdóttir en hún er að ljúka meistargráðu í næringarlæknisfræði frá Surrey-háskóla og meistaranámi í gagnreyndum heilbrigðisfræðum við Oxford-háskóla. Hún hefur starfað sem næringarráðgjafi um árabil og haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra.

 

 

SHARE