Þegar börn fara í megrun – “Ég var 11 ára þegar ég byrjaði að skammta mér hitaeiningar”

Ég heyrði auglýsingu í útvarpinu í gær þar sem auglýst var kaloríusnauð sósa. Ég man ekki hvað nafnið á vörunni var en þegar ég heyrði orðið kaloríusnauð varð mér hugsað til fyrri tíma. Mér varð hugsað til þess tímabils þegar ég taldi og skammtaði mér hitaeiningar. Ég las innihaldslýsingar á öllu sem ég lét ofan í mig og var með það á hreinu hversu mikilla hitaeininga ég neytti dag hvern. Ég borðaði alltof lítið. Ég hef verið um 11 ára þegar ég byrjaði í þessum pælingum, það kemur eflaust mörgum á óvart að 11 ára krakki spái í þessum hlutum. Mér finnst það í meira lagi óeðlilegt og auðvitað er það það. Barn í vexti á ekki að vera að skammta sér hitaeiningar. Ég man ennþá eftir því hversu svöng ég var, alltaf. Ég beið eftir því að geta sofnað vegna þess að ég var svo svöng að ég hlakkaði til að geta fengið mér næsta skammt af mat. Ég nefnilega mátti bara borða ákveðið magn af hitaeiningum á dag, samkvæmt einhverju kerfi sem ég sannfærði mig um að væri voðalega sniðugt og það sem var í boði var morgunmatur, sem ég man ennþá að samanstóð af einni skál af cheerios með banana og rúsínum, eitthvað lítið í hádegismat, hugsanlega ein brauðsneið í kaffinu og svo lítill skammtur af því sem mamma hafði í boði á kvöldin. Það er svo nauðsynlegt að taka það fram að ég var að æfa fimleika og stundum voru æfingarnar um 2 og hálfur tími ef ég man rétt og svo æfði ég fótbolta líka. Ég gekk alltaf í skólann, í hvaða veðri sem er. Á þessum tíma tók ég það ekki í mál að foreldrar mínir keyrðu mig í skólann. Ég gekk oftast heim líka, það sakaði nú ekki að brenna nokkrum extra kaloríum.

Taldi hitaeiningarnar

Ég taldi allar hitaeiningar sem ég borðaði, ég reyndi að halda þeim í algjöru lágmarki. Þarna var ég auðvitað bara barn og hafði ekki lesið mér jafn mikið til og í dag um hversu fráleitt það er að horfa bara á hitaeiningar og reyna að halda þeim í hættulegu lágmarki. Ég hafði hinsvegar greinilega gluggað í einhverjar auglýsingar og blaðagreinar þar sem auglýstar voru megrunarvörur. Auglýsingar eins og  fáðu þér xxx, aðeins X margar kaloríur…. sögðu mér það að því færri sem hitaeiningar væru í matnum þeim mun betra. Ég hugsaði ekkert út í næringargildi matarins heldur einbeitti mér bara að hitaeiningum. Í tilfellum eins og mínu sem eru því miður alltof algeng þá byrjar þetta þannig að maður ætlar að borða hollari mat, ég til dæmis hætti að drekka gos, alveg. Ég hætti að borða nammi en ég er eflaust einn mesti sælkeri sem þú finnur, þetta var því frekar mikið úr karakter fyrir barn sem var algjör nammigrís. Smátt og smátt fóru öfgarnar að færast í aukana. Ég gerði æfingar eftir hverja einustu máltíð. Ég tel mig nokkuð meðvitaða um ástæðu þess að ég byrjaði í þessari “megrun” en  þar spila nokkrir þættir inn í. Ég hafði fengið athugasemdir um að ég þyrfti nú að passa mig hvað ég léti ofan í mig. Fá mér minni kokteilsósu á diskinn og borða kannski ekki alveg jafn margar pizzusneiðar, ég myndi nú ekki vilja enda eins og (einhver sem var í yfirþyngd sem nefndur var á nafn) Þetta var ekki sagt af illum hug. Þeir sem sögðu þetta við mig voru svo sannarlega ekki að vonast til þess að ég fengi átröskun og vildu mér allt það besta, þetta sýnir manni það bara að maður þarf að vanda orðavalið þegar maður talar við börn og þá sér í lagi stelpur sem eru á þessum viðkvæma aldri og eru undir þrýstingi allsstaðar að, þær eru undir stöðugri pressu að vera grannar. Ég tel að þetta hafi virkað eins og olía á eldinn hjá mér, ég hafði eflaust haft undirliggjandi komplexa yfir þessu og ég man eftir því að mig langaði að vera með sixpakk og vera jafn grönn og Tori Spelling í 90210 sem einmitt barðist við lystarstol, sem ég að vísu hafði ekki hugmynd um á þessum tíma. Ég sá auglýsingar um Nupo létt sem var voðalega vinsælt, það var svo lítið af hitaeiningum í því að mér fannst það alveg tilvalið fyrir mig.

Ég var á mjög viðkvæmum aldri, farin að spá aðeins í útlitið og hitt kynið. Það eru rúm 11 ár síðan og ég held að það sé öruggt að segja að það var ekki farið að ræða jafn mikið um átraskanir á þessum tíma, hvað þá hjá börnum. Samfélagsmiðlar, fréttamiðlar og afþreyingarmiðlar hafa vakið upp þessa umræðu og nú er fólk almennt meðvitað um það að börn geta fengið átröskun.
Maður kemur sér upp mjög skipulögðu kerfi og þegar ég horfi á litla bróðir minn í dag, sem er einu ári eldri en ég var þegar þetta byrjaði hjá mér, finnst mér alveg hreint ótrúlegt að barn hafi verið farið að spá svona ítarlega í þetta. Mér finnst það bara óhugsandi að litlu stelpurnar sem ég sé í sundi séu kannski að svelta sig. Þegar ég sé litlar stelpur stíga á vigtina í sundlaugarklefunum læðist iðulega sú hugsun að mér að þær gætu hugsanlega verið á sama stað og ég var, og mikið innilega vona ég ekki. Mér finnst að stelpur á þessum aldri ættu bara ekki að stíga á vigt. Þær eiga bara ekki að vera að velta sér upp úr þyngd sinni, þær eiga að vera að hugsa um eitthvað ALLT annað en þyngd sína.

Ég var orðin mjög grönn en þetta komst aldrei á það stig að ég væri með alvarlegan næringarskort. Ég held að það hafi ekki margir áttað sig á hvað var í gangi, hjúkrunarfræðingurinn í skólanum talaði einu sinni við mig og vinkonu mína en hún hafði áhyggjur af þessu, það bar þó lítinn sem engan árangur þar sem ég held að ég hafi bara sagt henni að það væri ekkert vandamál til staðar, ég varð held ég bara frekar móðguð, satt best að segja. Mér fannst ég  vera að gera eitthvað heilsusamlegt, ég hélt að það væri svo gott að borða lítið. Ég náði mér ágætlega á strik og það sem ég held að hafi hjálpað mér var  það að ég hafði gott fólk í kringum mig. Ég veit að margir hafa verið mun verr staddir en ég og ég veit það líka að sumir lenda í klónum á þessum sjúkdómi og hann heltekur líf þeirra algjörlega í mörg ár. Það er samt sem áður hægt að sigrast á þessu þó að hugsunin sé eflaust alltaf undirliggjandi.

Ég byrjaði að borða meira og eðlilega en það hafa alveg komið tímar þar sem ég var við það að fara í sama farið – það hefur þó aldrei verið jafn slæmt og þarna enda veit ég af þessu í dag og er meðvituð um að ég þarf að passa mig. Það sem hefur hjálpað mér undanfarin ár að halda þessu niðri, er að borða hollan og næringarríkan mat. Þegar ég veit að ég er að borða góðan og hollan mat þá líður mér vel. Fyrir nokkrum árum breyttist hugsun mín mikið, ég fór að hugsa um heilsuna umfram allt annað. Ég vil fá vítamínin mín úr fæðunni og allt sem ég þarf. Ég vil vera hraust umfram allt og maður þarf kolvetni og næringu til að geta sinnt daglegu lífi. Ég er sælkeri og leyfi mér alveg að fá mér sætindi,  mér finnst rosalega gott að fá mér nammi stundum þó að ég viti að það er ekkert hollt fyrir mig. Ég er ekki hlynnt því að nota vörur sem stendur á “low fat” eða “diet” eitthvað. Ég vil miklu frekar borða bara hollan mat og leyfa mér sætindi af og til. Ég hef eflaust verið með snert af átröskun á þessum tíma, það er engum blöðum um það að fletta. Ég, ásamt svo ótrúlega mörgum konum hef upplifað tímabil þar sem þetta heltekur hugann. Það er alveg ótrúlegt hversu margar konur hafa einhverntíma kynnst átröskun. Það er allt í lagi að tala um það, ég geri það og fólkið í kringum mig veit þessa sögu mína. Svo er líka mikilvægt fyrir foreldra að lesa sér til um einkennin og einnig um viðeigandi viðbrögð. Það er til dæmis ýmislegt sem ekki er sniðugt að gera. Það að segja manneskju til dæmis að hún sé nú orðin svo mjó, hún megi ekki verða grennri, er eitthvað sem þú segir í þeirri von að manneskjan láti nú gott heita. Þetta getur gert manneskju sem er með átröskun enn einbeittari við það að grennast meira.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa náð tökum á þessu, þetta er eitthvað sem allir geta lent í og þetta er eitthvað sem má alveg og verður að tala um. Það er alltaf von og það er alltaf hægt að vinna á vandamálunum. Það eru mjög margar konur sem hafa átt við þennan vanda að stríða en treysta sér ekki til að ræða þessi mál. Þessum sjúkdómi fylgir oft mikil skömm sem er til staðar jafnvel mörgum árum eftir að fólk nær að sigrast á sjúkdómnum.

Ef ég bara vissi hvernig hægt væri að minnka líkurnar á því að stelpur fengju anorexíu. Það eina sem ég held að við, foreldrar, stjúpforeldrar, ættingjar eða verðandi foreldrar getum gert er að reyna okkar besta til að vera góðar fyrirmyndir. Ég las rosalega góðan pistil frá móður sem hafði nýlega eignast sitt annað barn. Hún talaði um það að eldri stelpan hennar (3ja ára) hefði potað í magann á henni og sagt barnið.

Mömmunni fannst þessi litlu pot dóttur sinnar vera yndisleg þegar hún var ólétt og brosti og tók undir með henni og sagði henni að þarna inni væri litla systir hennar. Eftir meðgönguna hélt barnið áfram að pota í magann og segja barnið. Mamman sagði þá við stelpuna, nei ekki barn, mamma er bara feit. Þá var þetta orðið að einhverri skömm, að maginn væri ekki kominn í fyrra horf eftir nokkrar vikur og mömmunni leið illa yfir þessu öllu saman. Hún sagði frá því í pistlinum að einn daginn hefði hún áttað sig, auðvitað átti hún ekki að segja við unga dóttur sína að hún væri feit. Hún vildi vera dóttur sinni góð fyrirmynd og ákvað að hætta að tala svona um sjálfa sig, hún sagði henni að hún væri heppin að hafa fengið að ganga með börnin sín í 9 mánuði og að hún væri ánægð með mjúka magann sinn. Ég held að það geti ekki sakað að passa sig á því að tala ekki niðrandi um okkur sjálf fyrir framan börnin, hvort sem það tengist líkamsvexti eða öðru.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar sem ég fékk úr bæklingi Landspítalans um Átraskanir – lotugræðgi og lystarstol. 

Átraskanir einkennast af alvarlegum truflunum á mataræði. Þær þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við matinn á annan hátt. Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er eðlileg líkamsþyngd og eðlileg máltíð. Mataræði verður oft lítið, einhæft og fitusnautt fæði.
Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel
í köstum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar
sig síðan við fæðuna á eftir, t.d. með því að framkalla uppköst.

Sumar átraskanir eru “blandaðar” með einkennum bæði
frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar ódæmigerðar átraskanir.

Vægari tegundir átraskana eru gjarnan settar undir þennan flokk (eating disorder not otherwise specified: EDNOS)

Átraskanir byrja oftast á unglingsárum en geta líka hafist á barnsaldri eða fullorðinsárum

Átraskanir eru algengastar hjá ungum stúlkum en einungis 5-15% þeirra sem greinast með lystarstol eru karlar.

Rannsóknir hafa sýnt að ungar konur sem fara í stranga megrun eru í 18 sinnum meiri hættu á að þróa með sér átröskun síðar meir á ævinni, miðað við þær stúlkur sem ekki fara í megrun. Þær sem fara í vægari megrun, eru hins vegar í 5 sinnum meiri hættu á að fá átröskun síðar á ævinni.

Stúlkur sem stunda ákveðnar íþróttagreinar þar sem grannholda vaxtarlags er krafist eru í mun meiri áhættu að fá átröskun en jafnaldrar þeirra. Má þar nefna fimleika, ballett og dans.

Um það bil 0,5­3,7% kvenna þjást af lystarstoli einhvern tíma á lífsleiðinni. Aðal einkenni lystarstols eru þau að einstaklingurinn er haldinn sjúklegum ótta við að þyngjast og verða feitur. Hann upplifir sig of þungan jafnvel þótt hann sé hættulega grannur. Allt snýst um að hafa stjórn á þyngdinni og reyna að vega sem minnst. Fólk með lystarstol vigtar sig gjarnan stöðugt og er upptekið af því að losa sig við hitaeiningar og ímyndaða fitu. Einstaklingurinn er því í sífelldri megrun sem getur leitt til vannæringar og undirþyngdar.

Félagsleg einangrun fylgir oft sjúkdómnum og manneskjan reynir oft að forðast aðstæður þar sem matur kemur við sögu.

Lotugræðgi

Áætlað er að 1,1­4,2% kvenna fái lotugræðgi einhvern tíma á lífsleiðinni. Lotugræðgi einkennist af því að einstaklingurinn fær átköst þar sem hann borðar óeðlilega mikið af kolvetnaríku fæði á stuttum tíma og losar sig síðan við fæðuna með uppköstum eða misnotkun lyfja. Viðkomandi er haldinn sama ótta við að þyngjast eins og sjúklingur með lystarstol og upplifir sig þyngri en hann er.

Sjúklingar með lotugræðgi eiga oft auðveldara með að dylja veikindin þar sem útlit er eðlilegt. Þessir sjúklingar eru oft í eða yfir kjörþyngd. Þó geta skipt á tímabil með lystarstoli og lotugræðgi og sjúklingurinn gengur þá í gegnum miklar þyngdarsveiflur.

Lotugræðgi fylgir oft sektarkennd og skömm og fólk upplifir depurð og þunglyndi yfir að geta ekki haft stjórn á lífi sínu.

SHARE