Vinkona mín skrifar inná Facebook síðu sína skemmtilega frásögn en hún lenti í heldur vandræðalegu í morgunsárið og deildi því með vinum sínum.
Ég fékk leyfi til þess að birta færsluna/statusinn en það er heldur fyndið að ímynda sér þetta!
Þegar ég vaknaði í morgun saklaus og áhyggjulaus hefði mér aldrei getað dottið í hug það sem morguninn átti eftir að bera í skauti sér. Klukkan var vel gengin í sex og gott að fara að byrja daginn. Dömunni í Skuggagilinu datt í hug að laga aðeins til, fara út með ruslið og sækja póstinn fyrir allar aldir, á náttsloppnum, eins og í bíómyndunum, þið vitið.
Áhyggjulausa stúlkan gekk niður stigann heima hjá sér með ruslapokann í hendinni, í sakleysi sínu ætlaði hún að henda þessum annars ágæta ruslapoka í einn rusladallana þarna niðri. Henni tókst það með ágætum… hélt hún! Þangað til hún kom að póstkassanum á leiðinni upp aftur, æ nei, engir lyklar, en hún var með þá í hendinni á leiðinni niður, fullviss um það! … „nei! Bryndís Hulda Ríkharðsdóttir, þú hentir ekki lyklunum í rusladallinn“ sagði hún við sjálfa sig, ekki svo áhyggjulaus lengur.
Að verða frekar klaufaleg, tvístígandi þarna fyrir framan póstkassann, gekk hún að rusladallinum og reyndi eins laumulega og hún gat að skima eftir lyklunum, jájá þarna voru þeir passlega langt niðri! Hún leit í kringum sig, ekkert svo margir á ferli.. jæja, best að kafa eftir lyklunum. Með rassinn upp úr, í náttslopp auðvitað, þvílík sýn og sjón sem það hefur verið, allt eins og best verður á kosið í þessum flottu aðstæðum, neinei… lokast helvítis dallurinn! Á skvísuna, sem var ekkert svo mikil skvísa lengur… eftir smá teygjuæfingar eftir blessuðu lyklunum þarna með dallinn lokaðan á rassinn tókst henni að ná þeim! Hún remdist eins og rjúpan við staurinn við að komast upp úr dallinum aftur og það tókst henni nú með ágætum. Illa lyktandi og ógeðsleg staulaðist hún upp aftur og fór í sturtu, hlægjandi alein af óförum sínum eins og asni..
… en nú klukkan 7 á föstudagsmorgni stálhrein og fær í flestan sjó heldur físan til vinnu hress sem aldrei fyrr!
Eigið góðan dag… !