Í Janúar 2013 áttaði ég mig á því að ég væri ófrísk og það fyrsta sem ég gerði var að ég sagði kærastanum mínum frá því. Mér fannst svp æðislegt að sjá hversu glaður hann var að heyra þessar fréttir, hann byrjaði strax að hugsa útí það hvernig það væri að vera með kraftaverkið okkar sér við hlið. Við höfðum nokkuð góða hugmynd um það vegna þess að 6. janúar 2011 eignaðist ég litlu stelpuna mína.
Það var svo núna í mars þegar mér var farið að líða öðruvísi og fann ekki hreyfingar í tvo daga að ég ákvað að panta mér tíma í auka skoðun upp á heilsugæslu. Ég var þá gengin 18 vikur og það var yndisleg ljósmóðir sem tók á móti mér og skoðaði mig, hún hlustaði eftir hjartslætti hjá litla krílinu mínu og það eina sem ég beið eftir að fá að heyra var hljóðið sem myndi róa allann minn ótta, en það sem ég fékk að var „Því miður elskan , ég verð að senda þig niðrá landspítala í sónar og nánari skoðun“. Ég hringdi í kærasta minn og mamma kom með okkur, ég bjóst við því að þurfa að bíða í dágóðan tíma eftir að röðin kæmi að mér en okkur var hleypt strax inn. Ljósmóðir skoðaði mig með sónartæki og ég sá litla barnið mitt á skjánum og það var alveg hreyfingarlaust, svo kom læknirinn til að staðfesta þetta og sagði okkur að þetta væri búið, hann sagði orðin sem ég vildi ekki heyra, hann sagði að hjartað væri hætti að slá og ég þyrfti að fæða barnið okkar. Mér leið eins og lífið væri búið, mamma beið frammi en hljóp inn til okkar því hún heyrði í mér gráta, hún sagði ekki neitt heldur tók bara utan um okkur og huggaði okkur bæði. Sem betur fer var mamma með okkur því okkur fannst veröldin vera hrunin.
Daginn áður var allt svo eðlilegt og við vorum búin að plana svo mikið fram í tímann, litla stelpan mín var að verða stóra systir og ég og kærasti minn vorum nýbúin að kaupa stærra hús fyrir komandi kraftaverk. Mér fannst þetta allt svo skrítið, í tólf vikna sónarnum völdum við að fara í hnakkaþykktarmælingu til að útiloka að eitthvað væri að, það var alls ekkert að og barnið fullkomlega heilbrigt. Ekkert benti til þess að það væri eitthvað að hjá barninu okkar og enginn gat sagt okkur afhverju hjartað hætti að slá.
Við tók löng bið þar til við fengum að hitta læknirinn aftur, hann sagði okkur hver næstu skref yrðu. Hann sagði okkur svo margt sem ég skildi ekki og ég heyrði ekki helminginn af því, ég var svo dofin í öllum líkamanum. Það sem var næst á dagskrá var að taka töflu til að mýkja legið fyrir fæðinguna sem átti að setja af stað 38 tímum seinna. Alla helgina var barnið mitt dáið inní mér og það var óþægileg tilhugsun en þessir dagar voru mér dýrmætir því ég fékk að kveðja litla engilinn minn.
24. mars mættum við upp á fæðingardeild til að eiga litla barnið okkar. Ég var sett af stað klukkan ellefu og verkirnir urðu mjög harðir klukkan tvö, fæðingin gekk vel og litli fullkomni drengurinn okkar kom í heiminn klukkan hálf fimm eftir átján vikna og tveggja daga meðgöngu. Það hafði engin geta trúað því hvað hann var fullkominn. Hann var með tíu putta, tíu tær, augu, nef, munn og eyru. Hann var svo fallegur litli engillinn okkar. Við fengum að halda á honum og eyddum dágóðum tíma með honum, tókum myndir og fengum fótspor og handafar í litla sæta bók með fallegum bænum. Við fórum heim eftir fæðinguna tómhent, það var svo rosalega skrítið að þurfa að ganga í gegnum það að fæða barnið sitt en fara svo tómhentur heim.
Við gáfum honum nafnið Friðgeir Freyr, það er í höfuðið á langafa hans í föðurætt. Okkur fannst það passa svo vel við vegna þess að þegar hann fæddist var svo mikill friður og ró yfir honum.
5. apríl jörðuðum við hann svo í gröfinni hjá ömmu minni í móðurætt. Þetta var bjartur og fallegur dagur og athöfn var rosalega falleg. Fjölskyldur okkar komu og voru með okkur, ég sagði nokkur orð sem fylgdu honum í kistuna og hjartahálsmen sem er brotið í tvennt, annar helmingurinn er hjá honum í kistunni og stóra systir hans er með hinn helminginn um hálsinn. Það var ekki fyr en daginn eftir jarðaförina sem ég vonaði að ég myndi vakna eftir martröð sem hafði gengið yfir í nokkra daga en svo áttaði ég mig á því að þetta var ekki martröð, þetta var kaldur raunveruleikinn. Litli drengurinn okkar var dáinn og mig verkjaði svo mikið í hjartað að ég hélt að ég gæti ekki umborið það. það ótrúlegasta við þetta allt saman er að lífið heldur áfram, sorgin sem heltók mig er eitthvað sem ég þarf að læra að lifa með. Við erum að fara að flytja í stærra hús og litla stelpan mín er að byrja í öðrum leikskóla, litla indæla stelpan mín sem kemur að mér, knúsar mig og segir “atti læ mamma”, ég veit að ég þarf að vera sterk fyrir hana.
Þessi lífsreynsla kenndi mér að ekkert í þessu lífi er sjálfsagt og þó eitthvað gangi upp einu sinni er ekki þar með sagt að það gangi upp í næsta skipti. Að vera ólétt kona er gjöf frá guði og að fá barnið sitt í hendurnar eftir fulla meðgöngu, fullkomlega heilbrigt og fá að taka það með sér heim til að elska er kraftaverk. Eitt af mínum kraftaverkum er engill sem hvílir hjá langömmu sinni.
Leiddu mína litlu hendi, ljúfi faðir þér ég sendi.
Bæn frá mínu brjósti sjáðu, blíði Jesú að mér gáðu.
Elsku drengurinn minn, engla prinsinn sem fékk ekki að líta dagsins ljós.
Mamma er svo tóm og sorgmædd að fá ekki að sjá þig vaxa úr grasi.
Nú þegar dagurinn er að renna upp og þú færð að hvíla í friði hjá Ellu
langömmu þá er svo margt sem fer í gegnum huga minn.
Ég ætla að staldra við og draga andann djúpt og vera sterk fyrir þig.
Þegar erfiðir dagar steðja að og sorgin heltekur mig
þá veit ég að þú ert hjá mér og hughreistir mig.
Ég elska þig litli drengurinn minn.
Þín mamma