Hefur þú einhverntímann verið í búð, séð eitthvað virkilega flott, fundist það samt of dýrt og hugsað að þú gætir auðveldlega búið þetta til? Ég lenti í því fyrir ekki svo löngu. Ég var með dóttur minni í búð, hún rak augun í 2 krukkur sem voru í svona viðargrind og hún skoraði á mig að gera eins. Og auðvitað varð ég við því.
Ég keypti þessa viðarbúta, en krukkurnar átti ég þegar. Þetta er ekki raunverulegur viður, hann er mjög léttur og það mjúkur að það er auðveldlega hægt að skera hann sundur. Og það gerði ég (reyndar eftir að hafa mælt fyrst, mæla tvisvar, skera einu sinni).
Ég vildi dekkja viðinn aðeins en átti ekki dökkan viðarbæsi. Neyðin kenndi víst nöktu konunni að spinna og þegar hún var búin að því þá kenndi hún viðarbæsfátæku konunni að taka akrýl málingu, þynna hana út í vatni og þá getur hún dekkt viðinn eins og henni lysti.
Krukkurnar í búðinni (fyrirgefið að ég tók ekki mynd af þeim en ég get eiginlega lofað því að mér finnst mín útgáfa flottari) voru með svona viðarstjörnu hangandi utan á sér og ég átti þessi viðarhjörtu sem ég bæsaði lika til að fá sama litinn, boraði gat á þau og setti svo utan á krukkurnar með bandi.
Svo var það trélímið. Ég byraði á að líma 2 spýtur niður við styttri endann, svo límdi ég 2 af þeim lengri, svo þær stuttu, koll af kolli.
Kemur bara nokkuð vel út ekki satt?
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.