Þegiðu og vertu sæt – Er þetta „enn ein feministagreinin“?

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ungur myndarlegur karlmaður, barnlaus og einhleypur, ekki með háskólapróf, kemst í áhrifastöðu í þjóðfélaginu. Hann hefur þar með skapað sér ímynd duglegs og vel gefins einstaklings, líklega vann hann öll kvöld og helgar til að sanna sig og að lokum fá starfið. Vá hvað hann á þetta skilið.

Ung myndarleg kona, barnlaus og einhleyp, ekki með háskólapróf, kemst í áhrifastöðu í þjóðfélaginu. Hún hefur þar með skapað sér ímynd kaldrar konu sem fæddist með silfurskeið í munni og hefur ekki tíma fyrir fjölskyldu, líklega hefur hún fengið þessa stöðu út á útlit eða fjölskyldutengsl. Vá hvað hún á þetta ekki skilið.

Í dag á Ísland að vera fremst á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti. Drengir og stúlkur hafa jöfn tækifæri til menntunar og í raun eru íslensk ungmenni alin upp með það að leiðarljósi að þeim séu allir vegir færir, algerlega óháð kyni. Við sem fullorðin erum predikum mikilvægi jafnréttis, að hæfileikar fari ekki eftir kyni og slíkt sé algerlega firrt skoðun. Við tölum, skrifum, slúðrum, rífumst og skömmumst útaf þessu. Við setjum reglur og lög og fordæmum hvers konar brot á þeim. Við gerum í raun allt sem í okkar valdi stendur, nema að breyta okkar eigin hugsanahætti.

Ertu að hrista hausinn? Finnst þér þetta ekki rétt? Er þetta „enn ein feministagreinin“?

Hér koma þrjár sannar sögur, allt tiltölulega nýleg atvik, úr nánasta umhverfi höfundar:

  • Ung kona, gáfuð, dugleg og metnaðarfull, framúrskarandi og klár í sínu fagi, situr við skrifborð sitt á nýrri skrifstofu nýstofnaðs fyrirtækis úti í bæ. Hún er í góðri stöðu innan fyrirtækisins og er að leggja lokahönd á gríðarlega mikilvægt verkefni sem skapar fyrirtækinu mikilvægar tekjur. Karlmaður á miðjum aldri gengur inn á skrifstofuna. Hann gjóir augum til ungu konunnar og án þess að yrða á hana snýr hann sér að karlmanni á næsta borði og segir hátt og snjallt yfir skrifstofuna: „Nei, ég sé að þið eruð komnir með ritara, en gaman.“
  • Ung kona, gáfuð, dugleg og metnaðarfull, sprenglærð með gífurlega leiðtogahæfileika, situr við skrifborð sitt í stóru fyrirtæki úti í bæ. Hún er deildarstjóri með átta undirmenn og er að taka viðtöl við mögulega þann níunda. Karlmaður á miðjum aldri gengur inn á skrifstofu hennar. Hann heilsar ungu konunni í hálfkæringi og lítur svo vandræðalega í kringum sig, frekar óþolinmóður. „Hvenær kemur svo yfirmaðurinn?“
  • Ung kona, gáfuð, dugleg og metnaðarfull, með sérmenntun í sínu fagi og hefur unnið sig hratt upp metorðastigann, mætir í kokteilboð eftir vel heppnaða ráðstefnu. Hún er í miðju samtali við nokkra kollega þegar talið berst til flutninga á milli fyrirtækja. Karlmaður á miðjum aldri hallar sér upp að ungu konunni: „Ég skal borga þér tvöfalt á við það sem þú færð í dag, það væri gaman fyrir mig að hafa svona augnakonfekt í vinnunni.“

Þetta er raunveruleiki ungu konunnar á vinnumarkaðnum á Íslandi í dag. Á mikilvægum fundum er gert ráð fyrir því að við sækjum kaffi, ef við erum ákveðnar þá erum við frekar en ekki með stjórnina, ef við hlæjum að brandara yfirmanns af hinu kyninu þá erum við að daðra, ef við erum ósammála meirihlutanum og látum í okkur heyra erum við með vesen, ef við vinnum okkur hratt upp þá er það grunsamlegt, ef við stígum feilspor þá hlakkar í fólki því þá „hafði það rétt fyrir sér“. Semsagt; ef við erum í áhrifastöðu þá erum við að villast.

Kannski er þetta betra en „í gamla daga“, en þetta er bara alls ekki í lagi. Kannski eru þetta einangruð tilvik, sorry en nei því miður er það ekki. Kannski á þetta að vera grín, en þetta er bara alls ekki fyndið. Þetta er sorglegt.

Hvernig væri ef við myndum leggja „Sexy Secretary“ og „Bitchy Boss“ ímyndirnar á hilluna? Já og jafnvel þessa dásamlegu „Mad men“ ímynd vinnustaða sem á að tilheyra fortíðinni en gerir það alls ekki. Þetta eru hlutverk í Hollywoodmyndum og með fullri virðingu þá er þetta ekki það sem ungar konur stefna að þegar þær hefja sinn feril á vinnumarkaði.

Í dag á Ísland að vera fremst á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti. Það er sorglegt.

SHARE