„Þið verðið nú að eiga eitt saman!“

By stockimages
By stockimages

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ég hef mikið lesið af pistlum frá konum sem eiga engin börn eða engan maka og lenda iðulega í því að gömul frænka eða bara fólkið í kring spyr, mjög reglulega: „Á ekkert að koma með eitt kríli bráðum?“ eða „Ert þú ekkert búin að finna draumaprinsinn?“ Þessar spurningar eru, ef þú spáir í því, óþarflega persónulegar. Af hverju ættir þú að vilja ræða við gamla frænku um það að þú sért kannski að reyna og reyna að eiga barn, og ekkert gangi. Eða að þú hafir nú verið að hitta einn, sem þú gætir hugsað þér að vera með en vitir ekki hvort hann sé til í að fara í samband, eða hvort þetta sé bara þýðingarlaust kynlíf. Nei það er ekki alveg málið!

Ég er kona sem á einn lítinn dreng frá fyrra sambandi. Sambýlismaður minn á 3 börn frá sínu fyrra hjónabandi. Saman erum við með 4 börn sem eru öll hjá okkur aðra hverja viku. Við erum með börn frá aldrinum 4 ára og upp í 14 ára. Allan skalann! Ég viðurkenni það fúslega að þessi samruni á fjölskyldum hefur gengið upp og ofan en við höfum alltaf náð að stýra ferlinu í rétta átt og erum sterk heild í dag. Ég gæti ekki verið hamingjusamari með fjölskylduna mína! Við eigum bæði gott samband við barnsforeldrana og allt gengur rosalega vel.

Ég hef samt oft velt því fyrir mér hvort við ættum eftir að eiga annað barn, saman. Í mínum huga hefur það aldrei verið nein spurning, að auðvitað VERÐUM við að eiga eitt saman. En er það málið? ÞURFUM við að eiga eitt saman?

Jú við fáum að heyra það frá flestum sem í kringum okkur: „Þið verðið nú að eiga eitt saman!“ með svona tón sem lætur þetta hljóma eins og: „þið verðið aldrei búin að fullkomna sambandið ykkar fyrr en þið eigið eitt barn saman, annars mun þetta aldrei ganga!“

Ég hef leyft mér að hugsa þetta aðeins lengra. Við erum mjög upptekin aðra hverja viku  þegar við erum með börnin, Skóli, heimanám, íþróttir, matartímar, nestisgerð og félagslíf á hug og tíma okkar allan þegar börnin eru hjá okkur og við njótum þess alveg í botn. Við erum með tvo bíla til þess að komast öll eitthvert sem við þurfum að fara, höfum ekki enn fjárfest í „strumpastrætó.“ Þegar fólk segir svo að við VERÐUM að eiga eitt saman, ætli það setji það aldrei inn í jöfnuna að við erum jú með 4 börn fyrir?

Það má vel vera að ég verði ólétt í næstu viku en þá bara gerist það og ég er alls ekki að loka á það, en mér finnst að fólk megi alveg íhuga þetta. Við eigum bæði börn, hann aðeins fleiri en ég, en það er aukaatriði. SAMAN eigum við 4 börn. SAMAN erum við 6 manna fjölskylda.

Lifið heil!

 

 

SHARE