ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
————————
Ég hafði ekki hugmynd hvað einn dagur án stríðni væri fyrr en ég var orðin 14 ára, allt frá leikskólagöngu og til þess dags.
Ég, sem sex ára gömul stelpa sem átti enga vini, hafði ekki hugmynd um hver tilgangurinn væri með því að segja ljót orð við einhvern annan vegna vaxtarlags þess sem fyrir ljótu orðunum varð, því ég vissi að enginn væri eins og ég. Ég bað til Guðs öll kvöld og spurði: ,,Af hverju ég?” – og ég skil þetta ekki enn þann dag í dag.
Pabbi minn sagði mér alltaf að líta fram hjá öllu svona og segja ekki orð á móti, þá fengju þeir gerendur ekkert út úr eineltinu, bara ef ég sýndi engin viðbrögð.
Ég flúði seinna aðstæður og hóf nám við annan skóla. Þar gekk allt vel og ég eignaðist mína fyrstu vinkonu í nýja skólanum. Ég þekki hana enn þann dag í dag en hún býr ekki á höfuðborgasvæðinu, sem er annað en ég geri.
Þetta gerði ég í 5 ár; sagði ekki orð á móti en samt hélt eineltið áfram, þessi hræðilegu orð sem komu út úr þessum ungu krökkum.
Í mínum skóla eru þrír árgangar 8, 9 og 10. bekkur. Fyrsta daginn minn í þessum ,,nýja” skóla (árið 2012) var mér boðið inn í nýja bekkinn, í nýja skólanum, af eldri geranda sem sagði: ,,Hvað ertu að gera hérna, ógeðslega svínið þitt?”
Ég greip fyrir munninn; ég hélt að allt sem hafði gerst áður væri loksins búið, að ég gæti byrjað upp á nýtt með sömu krökkunum. En þessu lauk ekki þarna og þessu lauk aldrei.
Sömu krakkarnir, alltaf að spila sama leikinn þótt ég væri löngu búin að veifa hvíta flagginu. Það var greinilega ekki valkostur.
Ég missti pabba minn 7 ára gömul og þá var enginn eftir til að leiðbeina mér. Ég var gjörsamlega ein á báti en hafði þó margt í huga sem pabbi minn sagði mér alltaf að muna. Hann sagði mér að sýna engin viðbrögð, ganga fram hjá vandamálinu eins og ekkert væri, þó það væri verið að „kasta hníf” í hjartað.
Einn dag í 8.bekk, þá fékk einn af gerendunum að finna fyrir því: Þó það væri langt síðan allt það slæma gerðist.
Ég hreinlega missti allt út úr mér!
Ég spurði AF HVERJU aftur og aftur en fékk ekkert svar.
Einn virkan dag árið 2013 fór ég í skólann og þá frétti ég nokkuð sem ég gæti aldrei nokkurn tímann ímyndað mér. Líf mitt hrundi á einu augnabliki; ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða brjóta vegg. Það á aldrei að gera grín að andláti fólks en það gerðist þarna og það var einn af verstu gerendunum – sá sem ég hafði óttast í mörg ár.
Ég var miður mín. Auðvitað. Ég hélt að fólk hugsaði sig um áður en það segir svona lagað. Þarna stóð ég ein, með óteljandi „hnífa í hjartanu” og fannst eins og sársaukinn gæti ekki orðið meiri. Alveg sama þó „hnífarnir séu teknir úr hjartanu” eða ekki, örin eru til staðar og þú gleymir orðunum aldrei. Þú þarft að ganga gegnum allt lífið með minningar og þetta eru mínar minningar.
Átta til níu ár sem munu standa upp úr.
Svo hér stend ég í dag. Á sextánda aldursári og þarf að ganga framhjá þessum sömu krökkum, stelpum og strákum, á hverjum einasta degi meðan ég reyni að þrauka daginn, en næsti dagur á eftir verður alltaf örlítið auðveldari.
Eitt hef ég lært af þessu öllu; að standa alltaf upp fyrir sjálfa mig. Ég er sterkur einstaklingur í dag og ég læt ekki neinn vaða yfir mig á skítugum skónum. Aldrei.
Tengdar greinar: