Þó þú hafir ekki verið í Verzló, MH eða MR ertu ekki vitleysingur – Við erum öll jöfn í Háskólanum

Nú eru tímamót hjá einstaklingum sem hafa lokið grunnskólaprófi og stefna í áframhaldandi nám. Sumir eiga erfitt með að ákveða sig, aðrir vita upp á hár hvað þeir vilja og hvert þeir stefna. Það er hinsvegar annað mál með hvaða skóla fólk vill velja. Fyrir marga er valið ekki flókið, þeir vilja að sjálfsögðu komast í þá skóla sem mest eru á milli tannanna á fólki, s.s. Verzlunarskóli Íslands, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn í Hamrahlíð o.s.frv. 

Fyrir marga er þetta svo mikið mál að þeir brotna niður við það að komast ekki inn í Verzló eða MR og jafnvel hætta við að fara í skóla. Sumum finnst tilhugsunin við það að komast ,,bara” inn í aðra skóla ömurleg og niðurlægjandi. Að sjálfsögðu er leiðinlegt ef maður kemst ekki inn í þessa skóla enda veita þeir manni góða menntun og félagslífið er sterkt. Hinsvegar liggur aðeins meira að baki heldur en bara það að skólarnir undirbúi nemendur sína vel fyrir áframahaldandi nám, vegna þess að hinir skólarnir veita líka mjög góða menntun og eru alls ekki síðri. Í gegnum árin hefur nefnilega myndast ákveðið snobb fyrir ákveðnum skólum, sem eldri kynslóðirnar halda á lofti og brýna fyrir komandi kynslóðum – þessvegna helst þessi mýta við. Miðað við sögusagnir eru það til dæmis bara fávitar sem stunda nám í framhaldsskólum og komast ekki inn í menntaskóla.

Ég var mjög kvíðin fyrir því að byrja í menntaskóla. Ég var ný flutt til Reykjavíkur og þekkti því ekki marga í bænum og var kvíðin fyrir því að þekkja engan fyrst um sinn. Að sjálfsögðu sótti ég um í Verzló eins og allir aðrir, enda hafði ég alltaf heyrt úr öllum áttum að Verzló væri eini skólinn sem eitthvað væri vit í að stunda nám við. Þrátt fyrir góðar einkunnir komst ég ekki inn og ,,neyddist því til” að fara í FÁ – Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ég hafði reyndar heyrt gott orð af honum frá fólki sem þekkja til, en þeir sem hafa ekki vit á menntakerfinu á Íslandi fóru að sjálfsögðu með sama mál og allir aðrir, að FÁ væri skóli fyrir vitleysinga!
Fyrsta vikan kláraðist. Krakkarnir töluðu allir um það að þeir: ætluðu sko ekki að vera í FÁ það sem eftir væri og ætluðu að breyta um annan skóla eftir áramót! Ég stóð hinsvegar föst á því að nú vildi ég ekki skipta um skóla, mér leið vel í FÁ og kennararnir voru og eru frábærir. Ég eignaðist fljótt vini og ég hlakkaði til að fara í skólann og læra. Eins og ég sagði áðan, kennararnir voru mjög góðir og sanngjarnir.
Seinna heyrði ég af fólki sem hafði t.d. farið yfir í MH en komið aftur í FÁ vegna þess að þeim fannst kennslan ekki nógu góð og kennararnir ekki jafn meðfærilegir og í FÁ. Kennslan var að sjálfsögðu ströng, enda þarf aga í námi, en það var alltaf reynt að hjálpa manni við hvað sem var ef eitthvað kom uppá. Ég er ánægð yfir því að hafa ekki skipt yfir í annan skóla. Mér finnst ég hafa þroskast mikið á veru minni í FÁ og mér finnst ég hafa lært ákaflega mikið og ég finn það í tímunum mínum í HÍ í dag að vera mín í Fjölbraut undirbjó mig vel. Ég kláraði FÁ á 3 árum og útskrifaðist þaðan árið 2012. Mikið var það gaman! Síðasta önnin mín var yndisleg, námið krefjandi en skemmtilegt, úrvalið af kúrsunum sem stóðu til boða voru svo mörg og spennandi að ég tók auðvitað helling af kúrsum sem höfðuðu til minna áhugamála, eins og heimspeki og mannréttindi, saga o.fl. Félagslífið var frábært, krakkarnir sem ég útskrifaðist með voru hressir og skemmtilegir og það að enda námið mitt í FÁ var yndislegt.

Nú stunda ég nám við Háskóla Íslands og sit í tímum með fólki komandi úr öllum áttum: MS, Verzló, FG, MK o.fl. Öll erum við á sömu braut, við sitjum hlið við hlið og lærum á sama hraða á sama erfiðleikastigi. Enginn spyr úr hvaða skóla við komum. FÁ undirbjó mig svo vel og skólaði mig svo vel til að nú stefni ég að því að klára háskólann líka einu ári á undan.
Það er því ekki aðeins menntaskólinn sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að þér líði vel í þeim skóla sem þú velur þér, að kennararnir séu góðir og að þú sinnir náminu þínu og lærir af því. Það er mikilvægt að hafa í hyggju að þú ert í námi fyrir sjálfan þig og engan annan. Vertu ánægð/ur yfir þeim skóla sem tekur á móti þér og vertu stolt/ur þegar fólk spyr þig í hvaða skóla þú ert, vegna þess að það skiptir ekki máli hvað aðrir segja, ef þér líður vel ert þú í rétta framahalds eða menntaskólanum. Sannleikurinn er nefnilega sá að við munum öll enda saman í einum graut þegar við förum í háskólanám.

Þeir nemendur sem eru að fara að hefja sína fyrstu önn í framhaldsskóla í haust óska ég góðs gengis og vona að þið njótið framhaldsskólaáranna!

Höfundur greinar: Snæfríður Grímsdóttir Michelsen

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here