Lesandi spyr:
Góða kvöldið
Ég þakka enn og aftur fyrir hjálpina og góð svör seinast.
En nú langaði mig að leita hjálpar til þín enn einu sinni.
Þannig er mál með vexti að dóttir mín á mjög erfitt með svefn og er að vakna rosalega oft eftir að hún er sett í nætursvefn á kvöldin, og því langaði mig að spyrja þig hvort að væri eitthvað sem að ég gæti gert betur til þess að þetta myndi lagast? Hún er ennþá með smá vökva í hægra eyranu, getur þetta verið það? Hún er samt ekkert grátandi eða óhress þegar hun er að vakna.
Svo er hún líka með rosalega mikla hægðartregðu (harðlífi) og ég hef reynt margt en ekkert virðist vera að virka fyrir hana?
Svo er hún með útbrot á mjóbakinu, ég hélt að það væri ofnæmi fyrir bleiutegundinni en svo virðist ekki vera.
Hún er tæplega 10 mánaða.
Með bestu kveðju
x
Þór svarar:
Sæl og blessuð og þakka þér fyrir póstinn
Nýja myndin af ykkur mæðgum er yndisleg og kannski best að byrja á múttu en þar er mikill viðsnúningur á útliti og líf að færast í þig aftur með aukinni birtu og bjartsýni og ekki spillir fyrir að vigtin er að fara niður.
Þegar ég skoða snúlluna þá er ég að skoða andlit og velti fyrir mér þessum blettum á enni og hægri kinn og framhandleggjum sem ekki eru á fyrri myndinni?
Harðlífi ungbarna er slæmt og sýnist mér það vera orsökin fyrir að þessi elska er að vakna og reyna en það má alveg gefa henni minni mjólk og setja vatn á pelann í staðinn. Barnabarn mitt hefur ekki drukkið mjólk eftir að hún sleppti brjósti og dafnar vel þrátt fyrir það, orðin 26 mánaða.
D vítamíndropar á þessum árstíma hjálpa líka og eins er gott að nudda á henni magann með barnaolíu en við gerum of lítið af slíku með kornabörn sem elska þetta og sofa mun betur rétt eins og við hin eldri.
Hún er hress að sjá og er að fá tennur og margt er í gangi á þeim tíma jafnvel smá hitavella.
Kveðja
ÞG
Sendið fyrirspurnir á netfangið thor@hun.is