Þorir þú að vera fatlaður? – Hjólastólasprettur og hjólastólahandbolti

Nemendur í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík standa fyrir firmakeppni til styrktar Reykjadal, sumardaginn fyrsta nk. 24. apríl  frá kl. 13:00 til 17:00. Keppnin fer fram í Laugardalshöll.

Þorgerður Katrín kynnir

Keppt verður í tveimur greinum, hjólastóla-sprett og hjólastólahandbolta. Kynnir verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Adolf Ingi Erlingsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson sjá um að lýsa keppninni. Meðal þátttakenda verða lið frá fyrirtækjunum Össur, Norðuráli og Landsbankanum. Enn er opið fyrir skráningu og hvetjum við fyrirtæki eindregið til þess að gera sér glaðan dag með samstarfsfélögum og fjölskyldum og leggja um leið starfi í þágu fatlaðra barna og ungmenna lið.

 Sannkölluð hátíðarstemming í Höllinni

Solla stirða mun líta við ásamt Hvata hvolpi lukkudýri Reykjadals. Þá munu þekktir handboltakappar jafnvel láta sjá sig auk fleiri góðra gesta.

Boðið verður upp á leiktæki og andlitsmálun fyrir börnin auk þess sem gestum og gangandi gefst m.a. kostur á að prufa hjólastóla.

Söfnunin þáttur í náminu

Að söfnuninni standa sex meistaranemar í verkefnisstjórnun við Háskólann í Reykjavík. Söfnunin er hluti af áfanga þar sem nemendunum er falið að skipuleggja og framkvæma raunhæft verkefni sem á að þjóna samfélaginu á einhvern hátt.

Allur ágóðinn til Reykjadals

Allur ágóði söfnunarinnar mun renna til Reykjadals. Í Reykjadal rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumar- og helgardvöl fyrir börn og ungmenni. Megin markmið Reykjadals er að þau börn sem ekki geta sótt aðrar sumarbúðir, vegna sérþarfa sinna, hafi kost á sumardvöl, þar sem þau geta notið lífsins á eigin forsendum.Í Reykjadal koma árlega um 200 börn og ungmenni allsstaðar að af landinu og á þjónustan sér enga hliðstæðu hér á landi.

Allir geta lagt málefninu lið

Fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem ekki sjá sér fært að taka þátt í mótinu bendum við á reikning 0549-26-10 kt.630269-0249 og söfnunarnúmerin:

902 0010 –> 1000 kr. 

902 0030 –> 3000 kr.

902 0050 –> 5000 kr.

 

 

SHARE