Þrífðu burstana á tveggja vikna fresti

Mikilvægt er að gefa sér tíma til að þrífa förðunarburstana sína reglulega.

Það er mikilvægt að þrífa förðunarburstana sína reglulega til að koma í veg fyrir að bakteríur berist í andlitið og valdi jafnvel sýkingu. Séu burstarnir notaðir á hverjum degi ætti að þrífa þá að minnsta kosti á tveggja vikna fresti. En gott er að hafa í huga að þó burstar séu ekki notaðir daglega þá sest ryk í þá sem þarf reglulega að þrífa úr.

Til þess að þrífa burstana er best að nota sápu sem sérstaklega er ætluð förðunarburstum, en það er líka hægt að nota lyktarlausa sápu, ungbarnasápu eða uppþvottalög.

Best er að byrja á því að láta vatn renna á hárin á burstanum og nudda létt í lófanum. Gættu þess samt að bleyta ekki samskeytin þar sem hárin eru límd á skaftið, vatnið getur nefnilega leyst upp límið.
Settu svo smá sápu í lófann og nuddaðu burstanum upp úr henni. Skolaðu burstann og kreistu mesta vatnið úr honum. Leggðu hann á handklæði til þerris.

 

Heimildir: Fréttatíminn

 

SHARE