Það er komið að því. Stundin sem þið hafið öll beðið eftir er runnin upp. Jólanammisukkið er kvatt og nýtt ár tekur við með spennandi fyrirheitum.
Ef þú settir þér áramótaheitið að gera eitthvað rosalega gott fyrir líkamann þinn, þá er ég með heilnæma uppástungu handa þér.
Þriggja daga kitchari hreinsun. Hún er frekar einföld og alls ekki ströng.
Kitchari er yogafæði og Ayurveda læknar mæla með þessarri hreinsun. Þú getur ráðið hvort þú fylgir monodiet og borðir þá bara kitchari eða færð þér á morgnana einfaldan hafragraut með vatni, blandaður með eplum, rúsínum og smá kanil. Milli mála færðu þér heitt vatn eða volgt eða yogate. Aldrei kalt. Svo í hádegismat og kvöldmat færðu þér kitchari og svo ekkert eftir það nema yogate og volgt eða heitt vatn.
Svo til að hjálpa þér, þá er hægt að taka Triphala bætiefni sem er einfaldlega blanda af þremur ávöxtum sem hafa svona einstaka eiginleika að hjálpa þér að detoxa. Það kemur meltingunni af stað, styrkir þarmaveggina og hefur náttúruleg andoxandi áhrif.
En uppskriftin af Kitchari kemur hér:
- 1 bolli basmati grjón brún
- 2 bollar mung baunir (fást í nettó m.a)
- 1,2 l vatn
- 4, meðalstórar gulrætur
- ½ kúrbítur
- 3 sellerístilkar
- 1-2 laukar
- 2 msk. ghee
- 1 msk. af fersku rifnu turmeriki
- 1 msk. af fersku rifnu engifer
- 1 tsk. af kóríander
- 1 tsk. af kúmín
- 1 tsk. af turmeriki (ef þið eigið ekki ferskt, eða bara líka) það er svo gott.
- 1 tsk múskat
- smá salt (má sleppa)
Þetta er aðferðin:
Byrjið á að skola grjónin og baunirnar vel nokkrum sinnum með vatni setja svo í pott og sjóðið. Á meðan getið þið föndrað við að skera niður grænmeti. Sjálf nota ég oftast kúrbít, gulrætur, lauk og sellerí og hver má velja sitt grænmeti. En mér finnst þetta best.
Áður en grænmetinu er bætt við byrjum við á því að hita ghee á pönnu og setja öll kryddin út á í 1-2 mínútur og hræra vel saman. Eftir það hellum við grænmetinu á pönnuna og steikjum það aðeins í kryddblöndunni. Setjum það svo út í pottinn með grjónunum og baununum og höldum áfram að sjóða þar til mungbaunirnar eru orðnar mjúkar og opnar og þetta er farið að líta út eins og gylltur grautur. Þá er þetta tilbúið. Eldunartíminn er í heildina um klukkutími.
Mung baunir eru einstaklega mikil uppspretta næringarefna. Þær eru stútfullar af B vítamínum, kalíum, magnesíum, fólati, kopar, sink og mjög mettandi, bragðgóðar og próteinríkar.
Gott er að byrja daginn á stuttri hugleiðslu fyrir morgunmat og gera léttar yogaæfingar yfir daginn og fara í göngutúra á meðan á þessarri hreinsun stendur. Svo er líka mjög mikilvægt að borða með fullri athygli, ekki borða með símanum eða sjónvarpinu, heldur njóttu hvers munnbita og finndu fyrir seddutilfinningunni. Forðastu að borða of mikið og njóttu augnabliksins. Eftir þessa þrjá daga, finnið þið bara að nammipúkinn er búinn að kveðja og þið fáið nýjan áhuga á breyttum matarvenjum.
Ófrískar konur ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þær fara út í svona hreinsun og eins ættu konur að velja sérstakan tíma fyrir þessa hreinsun. Ákjósanlegast er að byrja eftir blæðingar eða fyrstu tvær vikurnar eftir.
Satnam
Ég er ævintýragjörn, rauðhærð þriggja barna úthverfamamma, Kundalini jógakennari, ráðgjafi og heilari, er með fótboltaþjálfara- og dómararéttindi, hef starfað sem leikfimikennari og læknaritari og hitt og þetta. Ég er líka söngkona af lífi og sál. Með óslökkvandi lífsþorsta og forvitin um það sem lífið hefur upp á að bjóða.
Það er alltaf einhver leið úr öllum flækjum lífsins.
Satnam.