Til stendur að endurútgefa lengri útgáfuna af tónlistarmyndbandinu Thriller, frá árinu 1983, í þrívídd. Myndbandið er 14 mínútur að lengd og sýnir Michael Jackson umbreytast í óhuggulegan uppvakning sem leggur sér blóð fólks til munns.
The Rolling Stone greinir frá því að samningar hafi náðst við leikstjóra myndbandsins, John Landis, sem heimilar umboðsfyrirtæki Jackson að endurútgefa myndbandið í þrívídd og er það væntanlegt á næsta ári.
Það er því ekki úr vegi að rifja upp myndbandið góða en það ætti að koma flestum í hrekkjavöku-fílinginn. Michael Jackson fannst þó mikilvægt að taka það fram að hann væri ekki mikið gefinn fyrir dulspeki og sendi eftirfarandi orðsendingu frá sér sem sjá má í upphafi myndbandsins:
„Due to my strong personal convictions, I wish to stress that this film in no way endorses a belief in the occult“
Myndbandið hefur fengið yfir 200 miljónir áhorfa á Youtube.