Þrjóskan bar árangur – Var ættleidd frá Þýskalandi

Ég var frekar ung þegar ég komst að því ég væri ættleidd, en ég var ættleidd frá Þýskalandi og það eina sem ég vissi var að ég var þaðan og eftirnafn mitt.
Ég var nátturlega það ung að ég spáði ekkert í þetta enda á ég yndislega foreldra sem elskuðu mig og hugsuðu vel um mig. En þegar ég fór að eldast vildi ég komast að meiru enda fannst mér alltaf vanta eitthvað hjá mér. Ég vissi hvaða lögfræðingur sá um ættleiðsluna og talaði við hann fyrir sirka 25 árum en hann sagði ég get ekki hjálpað þér og fleira í þeim dúr. Þetta er búið að liggja þungt á mér og ég er búin að reyna margar leiðir til að finna upplýsingar um blóðfjölskylduna mína.

Svo allt í einu kom það upp í huga mér fyrir tveimur árum síðan að hafa samband við þýska sendiráðið hér á Íslandi og fór ég þangað í viðtal og það gekk vel. Mér var gerð grein fyrir því strax að þetta gæti orðið ein hamingja og gæti líka orðið algjör vonbrigði og jú ég sætti mig við það. Ég hugsaði með mér að þá væri ég þó allavega búin að reyna, hver svo sem útkoman yrði. Svo leið og beið og liðu rúmlega tvö ár en þá fékk ég fundarboð um að koma og fara í þýska sendiráðið til að fá upplýsingar um það sem þau fundu.

Þá komst ég að hvar blóðmóðir mín væri og líka blóðfaðir og eru þau bæði á lífi en svona í raun þá hafði ég ekki áhuga á að kynnast þeim heldur vildi ég kynnast systkinum mínum. Þanig að ég bað um þær upplýsingar sem ég fékk ekki vegna þess það var lokað fyrir þær upplýsingar en þau enn og aftur hjálpuðu mér að finna þau. Það var öðruvísi því sendiráðið úti í Þýskalandi þurfti að hringja og athuga hvort þau hefðu áhuga á að hafa samband við mig.

Svo fékk ég tölvupóst nokkru síðar þar sem fram kom að ég ætti 5 systkini og þau hefðu öll fengið heimilisfangið mitt til að skrifa mér. 31. júlí 2013 leit ég á tölvupóstinn minn og sá þá póst frá blóðbróður mínum. Það var stutt og laggott og ég skrifaði strax á móti og sendi Facebook nafnið mitt og þar bætti hann mér við sem vin og erum við búin að vera i sambandi síðan. Ég fékk heimilisfangið hjá öðrum bróður mínum og er búin að skrifa honum og bíð spennt eftir svari þar. Ég er líka spennt að sjá hvort og hvenær hin systkinin hafa samband ég er líka búinn að skrifa systur minni og ég veit að hún mun hafa samband.

Þetta tómarúm sem hefur alltaf verið inni í mér er nú fyllt af hálfu verður það fullt þegar ég er búinn að heyra frá hinum tveimur bræðrum minum. Auðvitað tekur þetta allt sinn tíma og það er erfitt fyrir suma að byrja á svona bréfi þar sem ekki er alltaf auðvelt að finna réttu orðin, ein stór hamingja hjá mér og ég gæti ekki verið ánægðari.

Sylvía

SHARE