Um daginn deildi ég grein á Facebook, sem hafði verið birt hér á Hún.is. Greinina getur þú séð hér. Greinin var um afar drungalega tískumyndatöku þar sem fyrirsæturnar litu út fyrir að vera mjög óheilbrigðar. Augljóslega áttu myndirnar að líta þannig út að fyrirsæturnar væru óheilbrigðar og þú sérð að þær eru hafðar gráar í andlitinu og líta út fyrir að vera vansælar, það er þó ekkert nýtt því tískumyndatökur eru oftar en ekki óvenjulegar. Ég hef sjálf dálæti af því að skoða flottar tískuljósmyndir en að sjálfsögðu skil ég vel hvað fólk á við þegar það talar um að til dæmis fyrirsæturnar í þessari töku séu ekki góð fyrirmynd fyrir ungar stelpur sem enn eru að mótast.
Í greininni sem Kidda setti inn benti hún á að þessar stúlkur væru langt undir kjörþyngd, þegar ég deildi greininni á Facebook fékk greinin gagnrýni og mig langar að ræða hana aðeins. Margir voru sammála en það eru alltaf skiptar skoðanir og eitt af þeim athugasemdum sem ég fékk á Facebook hjá mér var “hvað er að því að vera tágrönn?”
Svarið mitt var: Það er ekki það sama að vera tágrönn og að vera horuð og þjást af næringarskorti. Það er til í dæminu að fólk sé þannig gert að það þurfi alltaf að hafa virkilega fyrir því að halda holdum, bæði stelpur og strákar. Það er þó ekki oft sem maður sér það og þeir sem eiga erfitt með að halda holdum eru oftar en ekki mjög duglegir að borða og reyna sitt besta til að halda sér í kjörþyngd. Það er alveg á hreinu, eins og dæmin hafa sýnt að því miður er svo mikil pressa á ungum stúlkum að vera alveg að detta í sundur að stelpur eru byrjaðar að svelta sig svo ungar sem 5 ára gamlar. Það er bara ekkert eðlilegt við það og þó að það séu vissulega til konur sem eru mjög grannar af náttúrunnar hendi þá eru þær bara þannig gerðar og það er allt í lagi, það er nú samt sem áður ekki þar með sagt að þær þjáist af næringarskorti. Það er alltaf hægt að benda á þær fáu konur sem eru þannig gerðar í þessari umræðu, en málið snýst bara um það að staðreyndin er sú að konur og ungar stúlkur stunda það margar að svelta sig í þeim tilgangi að reyna að passa í eitthvert form sem búið er að ákveða fyrir okkur. Ekki misskilja mig, auðvitað er óhollt af vera í yfirþyngd en við erum að tala um öfgarnar í hina áttina.
Þegar ég var 11 ára byrjaði ég að spá í vextinum, mér fannst ég of feit, af hverju? vegna þess að mér hafði einhverntímann verið sagt að ég væri feit, ég tók því afar nærri mér og það hafði áhrif á mig lengi, einnig horfði ég mikið á Mtv á þessum tíma og allskyns þætti um stjörnurnar. Ég byrjaði í átaki. Átakið byrjaði ágætlega, ég hætti smátt og smátt að borða sætindi, minnkaði nammi og hætti allri gosdrykkju, ég var í fimleikum á þeim tíma og fótbolta og hreyfði mig mikið. Smátt og smátt fór þetta út í öfgar, ég minnkaði allverulega við mig í matarskömmtum, byrjaði að gera æfingar heima við eftir hverja einustu máltíð og ég man enn eftir því að ég fór alltaf svöng að sofa og það var oft erfitt að sofna vegna þess. Ég var 11-12 ára krakki í vexti og var oft rosalega orkulaus, einhvernveginn virtist ég samt sem áður fá einhverja extra orku til að hreyfa mig endalaust og alltaf komst ég í gegnum langar fimleikaæfingar, oft alveg glorhungruð. Ég las tilvitnun um daginn sem sagði eitthvað í þá áttina .. “þú getur sagt konu að hún sé falleg 10 sinnum á dag í mörg ár, og hún man það ekki, en ef þú segir henni að hún sé feit gleymir hún því aldrei” – vonandi á þetta ekki við um allar fullvaxta konur, en þegar þú ert að tala við ómótaðan ungling þarftu að passa þig hvað þú segir. Ég sem betur fer náði mér upp úr þessu frekar snemma en það er líklega stór partur af konum sem hefur einhverntímann á lífsleiðinni átt í einhverskonar óheilbrigðu sambandi við mat. Ég þarf alltaf að vera vakandi og passa mig og það er bara staðreynd.
Ég vil taka það fram líka af gefnu tilefni að mér finnst ekkert að því að vera grönn, mér finnst fallegt að vera grönn, ef þú ert heilbrigð! mér finnst hinsvegar líka allt í lagi þó að konur hafi smá utan á sér, svo lengi sem þær eru heilbrigðar og það veldur þeim ekki líkamlegum kvillum.
Sem betur fer er umræðan oft í rétta átt og mikið er stílað inn á heilbrigðan lífsstíl í dag, og heilbrigður lífsstíll snýst ekki um að vera grindhoraður, heldur snýst hann um að vera heilbrigð, bæði að innan og utan, borða hollan og næringarríkan mat og líða vel í eigin líkama. Frábært er að hreyfa sig líka reglulega bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Heilbrigður lífsstíll er ekki að fara í megrun og svelta sig.