Þú kemst í snertingu við stærstu lífverur jarðar!

Hvalasýningin á Granda er ein af þeim perlum sem höfuðborgin getur státað sér af um þessar mundir. Ég fór á sýninguna á dögunum og sá ekki eftir því og dæturnar komu með.

20150315_144600

Sýningin er mjög vönduð og fyrir utan það hvað hvalirnir eru raunverulegir og vel gerðir, þá eru fróðleiksmolar um þá alla sem eru mjög skemmtilegir og maður getur verið þarna tímunum saman að lesa um þessar merkilegu skepnur.

Ég heyrði aðeins í henni Stellu sem er framkvæmdastjóri Whales of Iceland og spurði hana út í þetta stóra verkefni:

„Haustið 2013 kom hugmyndin að hvalasýningu upp og upp frá þvi fór boltinn að rúlla.  Í kjölfar fjármögnunar fór hönnunarvinna af stað upp úr áramótum 2013-2014,“ segir Stella. Hún bætir við: „Mikill metnaður var lagður í undirbúning og var valinn maður í hverju rúmi.  Má þar nefna Hallgrím Friðgeirsson innanhúsarktekt, Þórð Orra Pétursson lýsingahönnuð, Huldar Frey Arnarson hljóðmann, Gagarín og Örvar Halldórsson hönnuð gagnvirkrar stöðvar.“

 

Vorið 2014 hófust framkvæmdir við húsnæði hvalasýningarinnar og hvalalíkönin komu til landsins í júlí, en þau voru flutt í átján 40 feta gámum frá Asíu þar sem þau voru smíðuð.  Kínverskir handverkskmenn settu hvalalíkönin saman ásamt Íslendingum.  Í byrjun september var ráðgert að opna sýninguna, en fimm dögum fyrir fyrirhugaða opnun varð eldsvoði í sýningarrýminu sem seinkaði opnun um tæplega 6 mánuði.

„Í lok febrúar 2015 opnaði hvalasýningin og er óhætt að segja að hún hafi hlotið góðar viðtökur.  Fyrstu opnunarhelgina heimsóttu yfir 1% þjóðarinnar hvalasýninguna, en alls hafa á bilinu 10 til 11 þúsund gestir heimsótt sýninguna,“ segir Stella og er auðvitað himinlifandi yfir viðtökunum.

20150315_144754

Á hvalasýningunni, Hvalir Íslands, geta gestir skoðað 23 hvalalíkön og beingrindur í fullri stærð.  Margir gestir hafa orðið agndofa þegar þeir átta sig á því hve stórir hvalir raunverulega eru.  Ítarlegar upplýsingar eru um hvern hval sem unnar eru af Eddu Magnúsdóttur sjávarlíffræðingi.

20150315_144340

Nokkrar gagnvirkar upplýsingarstöðvar eru í sýningarrýminu þar sem gestir geta skoðað myndir og videó af mörgum hvalanna sem eru á sýningunni.  Einnig gefst gestum færi á að læra nánar um hrefnuna í gegnum gagnvirka upplýsingaskjái sem upplýsa fólk um hvalinn.  Í sýningarrýminu gefst gestum einnig færi á að fá sér kaffi og meðlæti á kaffihúsi sem er á milli steypireiðar og sandreyðarinnar.

 

Fjölmargir skólahópar hafa þegar heimsótt sýninguna og er búið að vera þéttbókað frá opnun.  Nokkur pláss eru laus fyrir skólahópa í maí og júní.  „Börnin kunna vel að meta sýninguna og flestir skólar þiggja leiðsögn. Það er afar ánægjulegt að geta frætt skólabörn um hvalina,“ segir Stella.

IMG_20150315_144457

Sýningarrýmið býður upp á skemmtilega möguleika fyrir sérstök tilefni og er til útleigu utan opnunartíma.

 

Sýningin er opin alla daga frá 9 til 18 á veturnar og 9 til 19 á sumrin.

 

Myndir voru allar teknar með Samsung Galaxy Alpha

SHARE