Það er dásamlegt að fá að verða fullorðin! Er það ekki þannig sem maður á að horfa á þetta. Ég sjálf varð fertug um daginn og mér finnst ég ekki fullorðnari en þegar ég var 27, ég sver það! Kannski er ég bara eitthvað þroskaskert en ég er nokkuð ánægð með barnið innra með mér. Ekki misskilja mig, ég er alveg að taka ábyrgð, borga reikninga, er mamma, keyri bíl og þríf heimilið. En mér LÍÐUR ekki eins og ég sé fertug.
Að þessu öllu sögðu þá upplifi ég oft í daglega lífinu að ég sé að nálgast miðjan aldur, en fyrir mér er það alls ekki fyrr en um fimmtugt og já það er hár meðalaldur í fjölskyldunni minni (ég er í djúpri, djúpri afneitun, ég veit).
Ég stend mig að því að hljóma eins og mamma. Ég segi eitthvað og ég heyri það um leið að ég hljóma ALVEG eins og mamma, bæði röddin og það sem ég er að segja. Það er sláandi! Án þess að það sé á nokkurn hátt meint illa til mömmu. Annað sem ég geri er að ég tuða yfir tónlist í útvarpinu sem „er ekki einu sinni tónlist“, segi krökkunum að þetta sé sko „gamalt lag og búið að gera þessa nýju útgáfu“, sé svo í augum þeirra að þeim gæti ekki staðið meira á sama.
Sjá einnig: Vöðvabólgan var heilablæðing
Ég eyði óþarflega miklum tíma í plönturnar mínar og umhirðu þeirra. Ég er alltaf að spá í þeim en þegar ég var 27 gat mér ekki staðið meira á sama um plöntur. Nú finnst mér heimilið ekki eins ef það eru engar plöntur. Ég er líka, stundum, farin að vera lengi að tileinka mér nýjungar. Alls ekki allar, en ég var t.d. mjög sein til að fara að fá mér rafræn skilríki og mjög sein að fara að borga með símanum. Þetta var ekki nauðsynlegt og gamla aðferðin virkaði svo vel að ég var ekkert að spá of mikið í þetta.
Inni í mér er alltaf hin Kidda, sem finnst gaman að taka handahlaup, standa á haus, brjóta svell, búa til skriðu, smíða kofa, byggja snjóhús, fara í körfubolta og svo framvegis. Ég held að um leið og ég hætti að gera þessa hluti verði ég orðin „fullorðin“ og kannski langar mig bara ekkert að verða svoleiðis „fullorðin“.
Ég sá svolítið skemmtilega færslu hjá Bored Panda á dögunum sem mér fannst lýsa þessu mjög vel, þ.e.a.s. hvernig er að vera fullorðin, og ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum skemmtilegum dæmum.
Þú veist að þú ert orðin fullorðinn þegar þú færð fleiri reikninga, en jólagjafir um jólin
Mommy Owl
Að vera fullorðinn er í meginatriðum að láta alltaf eins og þú sért ekki hrædd/ur við neitt.
Alisa
Að vera fullorðinn er að þurfa alltaf að vera að kaupa leiðinlegustu hluti í heimi.
Grace Freud
Að vera fullorðinn er að drekka kaffi eftir klukkan 7 á kvöldin og að sætta sig við að þú munir ekki fá almennilegan svefn næstu 3 árin.
Mike
Það er alveg tryllt að vera fullorðinn. Þú ert eina mínútuna að gráta inni í herbergi og þá næstu ertu að svara vinnusímtali.
Trash Jones
Að vera fullorðinn er að hugsa „Það verður minna álag í næstu viku“ í hverri viku, til dauðadags.
Bec Shaw
Velkomin/n til fullorðinsáranna. Ekki vera yfir þig ánægð/ur með 6 tíma svefn því það þýðir bara að þér verður illt í bakinu í að minnsta kosti viku.
Mom Transparenting
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.