La Boqueria risastóri matarmarkaðurinn á Römblunni í Barcelona má hreinlega enginn láta framhjá sér fara heimsæki hann á annað borð borgina, slík er upplifunin. Dáldið eins og að ganga inn í paradís þar sem litadýrð er allsráðandi og ilmurinn ómótstæðilega lokkandi. Ógrynnin öll af ferskmeti eru á boðstólnum, heilu staflarnir af ávöxtum og grænmeti, hreinir ávaxtasafar í massavís, meira að segja heilir skrokkar af svínum og kjúklingum hangandi eða liggjandi með brostin augu. Augu krabbagreyjanna voru aftur á móti ennþá tifandi að ógleymdum Spánverjunum sem kölluðu af eldmóð nýjustu tilboðin hver í kapp við annan.
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.