ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
————————
Í ljósi umræðunnar um Hjördísi Svan og börn hennar að þá hef ég þetta að neðanverðu að segja, henni og börnum hennar til stuðnings. Ég gat ekki setið á mér.
Í mörg ár bjuggu ég og börn mín við mikið ofbeldi og ofsóknir af fyrrum sambýlismanni mínum. Við bjuggum á litlu sjávarplássi úti á landi þar sem enga hjálp var að fá, enda er heimilsofbeldi ekki viðurkennt vandamál á Íslandi, virðist vera. Það er einhvernveginn þannig að enginn vill vita af því og fólki finnst betra að loka augunum fyrir því af því þetta er svo óþægilegt.
„Gekk í skrokk á mér hvenær sem var“
Minn ofbeldismaður gekk mjög langt, hann gekk í skrokk á mér hvenær sem var og seinna meir hvar sem var, í margra viðurvist en aldrei var hann stoppaður. Sárasjaldan voru vitni kvödd til þó þau höfðu verið á staðnum. Börnin mín fengu aldrei að tjá sig um ofbeldið sem þau horfðu uppá nánast daglega við lögreglu sem oftar en ekki var kvödd til inn á heimilið. Lögreglan hafði meira að segja ekki meiri áhyggjur af því hvað gekk á inn á heimili, fullu af börnum, að málið var aldrei, ekki einu sinni, tilkynnt til barnaverndarnefndar á staðnum, sama hversu alvarlegt ofbeldið var, sama hversu ljót aðkoman var og var alveg sama hvar hann réðst á mig.
„Laug að ég væri geðveik og pilluæta“
Í fyrstu var þetta leyndarmál innan veggja heimilisins, eins og verður svo oft því skömmin er svo mikil, en svo var þetta farið að bitna mikið á börnunum sem voru í grunnskóla og margoft fóru þau ósofin í skólann þegar ofbeldið gekk heilu næturnar. Ég get nánast fullyrt að allir kennarar í skólanum vissu hvað gekk á, allt bæjarfélagið vissi það en aldrei kom hjálpin sem ég beið eftir og hefur enn ekki komið. Ég vonaðist alltaf eftir bréfi frá barnaverndarnefnd og að þau gætu hjálpað mér að losna við manninn en hvorki skólinn né lögregla tilkynntu nokkurn tímann málið eins og ég hélt að væri í lögum! Það var orðið sama hvar hann réðst á mig eða börnin mín, hvort hann dró mig á hárinu fyrir framan fólk í matvöruverslun bæjarins eða sparkaði í mig og henti mér í götuna, það skipti bara ekki máli. Þessi maður var í félagsskap fólks sem hittist reglulega á fundum og laug hann því að ég væri geðveik, pilluæta með meiru svo að ég fékk nú stundum að heyra frá lögregluþjónunum sem komu inn heimilið, hvort ég væri ekki bara drukkin eða lyfjuð. Hann laug öllu sem hann gat til að sverta mig og grafa yfir sinn eigin skít. Í sífellu hótaði hann að láta taka börnin af mér og allt í þeim dúr eins og slíkum mönnum sæmir. Ég hef aldrei átt við vímuefnavandamál að etja, hvað þá lyfjanotkun en ekki hafði lögreglan nú einu sinni fyrir því að athuga þau mál, heldur var ég bara stimpluð óreglumanneskja út frá orðum ofbeldismanns. Ég hefði nú eimitt haldið að ef ég væri grunuð um mikla lyfjanotkun og drykkju hefði átt að tilkynna málið hið snarasta til barnaverndar.
Fékk nóg og flúði land
Einn örlagaríkan dag fékk ég nóg. Ég gat ekki meir, var algerlega búin á því andlega og líkamlega en mig vantaði kjark og hugrekki til að koma snörunni fyrir, ég gat ekki hugsað mér að lifa við þetta meir. Sem betur fer, fór þessi hugsun fljótt því hvað hefði orðið um börnin mín? Myndi hann fá þau og hvað yrði þá? Þá hugsun hefði ég aldrei viljað hugsa til enda.
Ég ákvað að flýja með þau erlendis og var farin úr landi tveimur vikum seinna. Ég fékk vinnu og íbúð strax og börnin byrjuðu í skólanum. Þau voru mjög ánægð, gekk vel að aðlagast og læra nýtt tungumál, enda voru þau ekki síður uppgefinn af ástandinu en ég – loksins vorum við örugg. Við dvöldum í góðan tíma í öðru landi sem reyndist okkur öllum vel. Hann hætti að reyna að hafa upp á okkur á meðan á dvölinni stóð og við vorum loksins frjáls. Eftir þennan yndislega tíma fluttum við heim aftur, var hann þá fluttur í burtu úr bæjarfélaginu, enda voru stóru orðin hans ekki mikil þegar uppi var staðið, hafði engan
áhuga fyrir börnunum. Við fengum því miður ekki áframhaldandi frið þegar við komum aftur til landsins, endalausar hótanir í formi sms skilaboða og símtala, hótanir að hann myndi koma og drepa okkur öll, en hann hefur ekki komið og mætt okkur til þess ennþá, enda farinn að þjaka aðrar konur og börn með ofbeldi því þessir menn hætta aldrei! Enda eru þeir ekki stoppaðir og allir virðast vera hræddir við þá eða vita ekki hvað á að gera. Ég vona af öllu mínu hjarta að Hjördísi Svan
og hennar börnum verði komið til bjargar og verndarvæng. Þessi börn eiga það inni hjá íslenskum ráðamönnum að vera hjálpað á einn eða annan hátt. Við þurftum margoft að flýja okkar eigin heimili þegar á ofbeldinu stóð, sem betur fer flúði ég land með börnin mín, sem annars væru kannski ekki það sem þau eru í dag ef að ástandið hefði haldist óbreytt og við ekki leitað eftir hjálpinni óstudd.