Búast má við töluverðum hamagangi þegar HM opnar loksins verslun hér á landi næsta sumar.
Áhugafólk um tísku hlýtur heldur betur að kætast þessa dagana, því hver verslanakeðjan á fætur annarri virðist sjá hag í því að opna verslun hér á landi. Fjölbreytni í fataverslun ber að fagna, enda viljum við ekki líta öll eins út. Íslendingar hafa hingað til sótt töluvert í verslunarferðir til útlanda, en með meiri fjölbreytni og hagstæðara fataverði, vegna afnáms tolla og aukinnar samkeppni, má líklega búast við því að verslunin færist eitthvað heim.
HM opnar næsta sumar
Það ætlaði allt um koll að keyra í sumar þegar formlega var tilkynnt að sænski verslunarrisinn HM myndi opna að minnsta kosti tvær verslanir á næstu árum. En orðrómur um það hefur heyrst reglulega á síðustu árum.
Nú hefur verið staðfest að verslunin opni í Smáralind næsta sumar og svo á Hafnartorgi árið 2018. Þá standa yfir viðræður við fasteignafélag Kringlunnar um opnun verslunar þar.
Það er viðbúið að stór hópur Íslendinga komi til með að vilja kynna sér vöruúrvalið um leið og verslunin opnar og að langar raðir myndist, en HM selur fatnað fyrir fullorðna og börn á hagstæðu verði. En komið hefur fram að verð í verslunum þeirra hér á landi verði að öllum líkindum sambærilegt og í öðrum löndum.
Fjölbreyttur tískufatnaður
Það er eflaust mörgum í fersku minni þegar sænska verslanakeðjan Lindex opnaði í Smáralind árið 2011 og fólk stóð í löngum biðröðum til að komast inn í verslunina. En svo mikið gekk á að lager verslunarinnar varð uppurinn á skömmum tíma.
Þá hafa á síðustu vikum og mánuðum verið opnaðar þrjár verslanir á vegum Cortefiel Group í Smáralind; Women’secret, sem selur undirföt fyrir konur, tískuvöruverslunin Springfield, sem sérhæfir sig í tískufatanði fyrir konur og karla á aldrinum 20 til 30 ára, og tískuvöruverslunin Cortefiel, sem selur tískufatnað fyrir fólk á aldrinum 35 til 45 ára.
Cortefiel Group er leiðandi í fataverslun í Evrópu og rekur nú verslanir í 84 löndum og er Ísland fyrsta landið á Norðurlöndunum þar sem félagið opnar verslanir.
Þá hefur verið ýjað að því að fleiri stórar verslanakeðjur líti hýru auga til Íslands, en samningur við HM mun hafa skipt sköpum í þeim efnum.
Springfield sérhæfir sig í tískufatnaði fyrir fólk á aldrinum 20 til 30 ára.
Cortefiel á að höfða til fólks á aldrinum 35 til 45 ára.
Women’secret selur undirföt, kósíföt og náttföt fyrir konur.
HM selur fatnað á alla fjölskylduna á hagstæðu verði.