
Tori Spelling (50) deildi fyrstu andlitsmyndinni sem tekin var af henni fyrir Beverly Hills 90210, en hún lék Donnu Martin. Myndinni deildi hún í tilefni af 33 afmæli þáttanna og var Tori aðeins 15 ára gömul þegar myndin var tekin.

„Þessi var tekin þegar var verið að taka upp fyrsta þáttinn. Ég var 15 ára og hafði ekki enn farið í nefaðgerð, ekki látið lýsa á mér hárið og kunni ekki að sitja fyrir. Ég var bara svo þakklát fyrir að vera þarna,“ skrifaði Tori við færsluna á Instagram. Hún sagði að hún hafi, á þessum tíma, verið mjög upptekin af því að sanna hvers virði hún væri, en pabbi hennar, Aaron Spelling, var einn af framleiðendum þáttanna.

Tori segist enn þann dag í dag alltaf vera að sanna að hún geti leikið og fengið hlutverk á sínum eigin hæfileikum en ekki vegna pabba síns.
Nýlega skildi Tori og býr í dag í húsbíl með börnum sínum en heldur alltaf fast í jákvæðnina. Hún lenti líka í heilsubresti vegna myglu í einu húsnæði sem hún bjó í og hefur verið að jafna sig á því.