Tvær þingsályktunartillögur lagðar fram varðandi breytingu á lögum er varða búsetu skilnaðarbarna

Flest erum við meðvituð um að réttindi feðra eru oft mjög skert þegar kemur að því að umgangast börn sín, ekki nóg með það að réttindi föðursins séu oft alltof lítil heldur er auðvitað verið að brjóta á barninu líka. Eftir skilnað er það oftast tilfellið að lögheimili barns er skráð hjá móður, sama hvort umgengni föður og móður sé jöfn eða ekki er þetta oftast tilfellið. Reglurnar eru þannig að foreldrið sem býr ekki með barninu er ekki foreldri barnsins samkvæmt lögum, semsagt ef þú ert faðir og barnið þitt á lögheimili hjá móður barnsins ert þú ekki skráður sem faðir barnsins. Jafnvel þó að faðir sé meira með barnið en móðir á hann ekki rétt á meðlagi, hann þarf hins vegar að borga móður meðlag, hún fær barnabætur og meðlagið hvort sem hún er mikið með barnið eða lítið, hún fær líka barnabæturnar, þrátt fyrir að foreldrar séu með sameiginlega forsjá. Svona er þetta samkvæmt lögum þó svo að fólk sem hugsar um hagsmuni barnsins fyrst og fremst geti gert samning sín á milli um að skipta barnabótum og meðlagi á milli, það eru hinsvegar því miður ekki allir sem taka hagsmuni barnsins fram yfir sína eigin.Það er þó orðið þannig í dag að fólk er farið að ræða þessi mál og við erum farin að átta okkur á því að þetta er ekki í lagi, hægt og rólega eru réttindi feðra að aukast en það er þó enn margt sem betur mætti fara.

Skref í rétta átt

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður hefur lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem gera ráð fyrir breytingum á lögum er varða búsetu skilnaðarbarna. Önnur tillagan, hefur fengið jákvæða umsögn úr velferðarnefnd en í henni segir að innanríkisráðherra skuli stofna starfshóp sem semja myndi frumvarp um að börn hefðu annað hvort tvöfalt lögheimili eða að búið yrði til nýtt lagalegt hugtak um jafna búsetu. Hin tillagan fjallar um að skráningarkerfi hins opinbera verði breytt þannig að báðir umgengisforeldrar verði skráðir sem foreldrar.

Guðmundur segir:
„Kerfið gerir ráð fyrir því að eftir skilnað þá fari barnið bara til mömmu sinnar og pabbinn fari bara og kaupi sér sportbíl, eigi ekki barn lengur og borgi bara meðlag samkvæmt opinberum gögnum. Það eru skilaboðin,”

Guðmundur segir að það skekki mjög alla pólitík gagnvart fjölskyldum og börnum að það séu bara lögheimilisforeldrar sem eru skráðir foreldrar barna en ekki umgengnisforeldrar.

„Stórir hópar fólks sem hafa börnin sín lungann úr árinu eru bara ekki skráðir foreldrar þeirra og njóta þá ekki stuðnings sem slíkir. Þetta er arfur frá gömlum tíma, gamaldags kynjapólitík.” Segir Guðmundur.Það verður spennandi að sjá hvort að þessar tillögur verði samþykktar. Ef lögunum verður breytt á þennan hátt mun það verða stórt skref í rétta átt fyrir alla feður. Þetta mál varðar okkur öll!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here