Jæja, nú styttist í brottför! Ég flýg til Póllands á föstudag og já það er gul viðvörun, nema hvað! Undirbúningur hefur gengið vel, allur sykur út og koffín (svindlaði reyndar aðeins þar). Hef aðallega verið á fljótandi fyrir utan smá fisk og grænmeti. Mér líður vel finn að skrokkurinn er verkjaminni og orkan komin upp, á tímabili var ég gjörsamlega með gufu í hausnum af sykur- og koffínskorti.
Ég finn aðallega fyrir tilhlökkun en jú það örlar aðeins á kvíða fyrir aðgerðinni og fyrstu dögunum á eftir. Jú, svo kemur hausinn með svona skemmtilegar hugsanir eins og „þú ert klikkuð að fara sjálfviljug í aðgerð, þér sem er svo illa við svæfingar.“ Ég er í góðum tengslum við Hei Medical Travel og fæ þar hvatningu, stuðning og fróðleik. Það skiptir gríðarlega miklu máli.
Ég get ekki beðið eftir sumrinu, því í höfðinu á mér er mynd af mér þar sem ég svíf upp Esjuna eins og antilópa, vá hvað það verður geggjað að ganga á fjöll með léttari eigin farangur! Læt mig líka dreyma um flott föt, já og góða heilsu. Heilsan er númer 1 í röðinni, það er mér alveg ljóst.
Það er smá kvíði í mér að yfirgefa eiginmanninn en hann er að fara í lyfjagjöf í dag við sínu krabbameini og við vitum ekki hvernig aukaverkanirnar verða. Það er búið að stilla upp riddaraliðinu til að vera til staðar fyrir hann og ég er með mitt riddaralið með mér úti.
Jæja munið að fylgjast með á instagram hun_insta og Hun snappinu því ég stefni á að vera dugleg þar.
Sendið mér góða strauma 😉
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!