Tveir dagar í flug – Magaermi alveg að bresta á

Jæja, nú styttist í brottför! Ég flýg til Póllands á föstudag og já það er gul viðvörun, nema hvað! Undirbúningur hefur gengið vel, allur sykur út og koffín (svindlaði reyndar aðeins þar). Hef aðallega verið á fljótandi fyrir utan smá fisk og grænmeti. Mér líður vel finn að skrokkurinn er verkjaminni og orkan komin upp, á tímabili var ég gjörsamlega með gufu í hausnum af sykur- og koffínskorti.

Ég finn aðallega fyrir tilhlökkun en jú það örlar aðeins á kvíða fyrir aðgerðinni og fyrstu dögunum á eftir. Jú, svo kemur hausinn með svona skemmtilegar hugsanir eins og „þú ert klikkuð að fara sjálfviljug í aðgerð, þér sem er svo illa við svæfingar.“ Ég er í góðum tengslum við Hei Medical Travel og fæ þar hvatningu, stuðning og fróðleik. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég get ekki beðið eftir sumrinu, því í höfðinu á mér er mynd af mér þar sem ég svíf upp Esjuna eins og antilópa, vá hvað það verður geggjað að ganga á fjöll með léttari eigin farangur! Læt mig líka dreyma um flott föt, já og góða heilsu. Heilsan er númer 1 í röðinni, það er mér alveg ljóst.

Það er smá kvíði í mér að yfirgefa eiginmanninn en hann er að fara í lyfjagjöf í dag við sínu krabbameini og við vitum ekki hvernig aukaverkanirnar verða. Það er búið að stilla upp riddaraliðinu til að vera til staðar fyrir hann og ég er með mitt riddaralið með mér úti.

Jæja munið að fylgjast með á instagram hun_insta og Hun snappinu því ég stefni á að vera dugleg þar.

Sendið mér góða strauma 😉

SHARE