Um líkindamat á meðgöngu

Áður en ég varð ólétt fannst mér sjálfsagt að allar konur veldu sér að vilja fara í hnakkaþykktarmælingu og líkindamat, ég fór ekki að pæla í því fyrr en ég las fréttir um að konur væru að fara  í fóstureyðingu þegar þær fengu þær niðurstöður að miklar líkur væru á því að þær gengu með barn með Downs heilkennið. Ég velti þessu mikið fyrir mér þá vegna þess að þetta hræddi mig. Það sem hræddi mig var það að við erum alltaf að færast nær því að geta leikið guð. Ég dæmi engan sem velur sér það að láta eyða barni með Downs heilkennið vil taka það skýrt fram, en hinsvegar hræðir þessi þróun mig örlítið, hvenær getum við farið að greina börn með einhverfu, ADHD eða annað í móðurkviði? Það er svo margt sem getur verið að barninu okkar, allskyns geðræn vandamál eða annað sem kemur upp eftir að barnið fæðist og þroskast. Við getum aldrei búist við að barnið okkar verði fullkomið og laust við alla “galla” við tökum ákveðna áhættu þegar við ákveðum að verða foreldrar, við vitum ekki hvernig verkefni gætu beðið okkar en í dag er þó hægt að undirbúa sig undir ýmislegt í sumum tilvikum eins og hjartagalla og ef maður gengur með einstakling með Downs heilkennið getur maður þá aflað sér upplýsinga og leitast eftir hjálp frá fólki sem hefur verið í sömu aðstöðu og það er einn kosturinn við þessar greiningar. Þetta er hinsvegar bara brotabrot af því sem getur komið upp í lífi barns okkar. Það er til ýmislegt verra en Downs heilkennið það er ég alveg viss um.

Jæja, nú var komið að mér að taka þessa ákvörðun. Á ég að fara í hnakkaþykktarmælingu og líkindamat? fyrst hafði ég hugsað mér að gera það, bara til þess að geta verið undirbúin ef eitthvað væri að. Svo fór ég að veltast um með þetta allt saman, ég ætlaði alltaf í hnakkaþykktarmælinguna en ég var í vafa með líkindamatið þar sem það er svo rosalega nákvæmt eða 95% skilst mér, eins nákvæmt og það er eru alltaf þessar 5% líkur á að greining hafi verið röng og þá fannst mér erfið sú tilhugsun að hafa áhyggjur út alla meðgönguna.

Ég fór að hugsa, hvað ætla ég að gera ef líkurnar eru ekki barninu í hag? ef barnið fær slæmar líkur? Ætlum ég og maðurinn minn þá að ákveða örlög þess? ég og kærastinn minn ákváðum að ræða það ekkert og velta okkur ekki upp úr því hvað við myndum gera EF líkurnar kæmu illa út. Það er þó skimað fyrir heilaleysi og öðrum atriðum sem eru mjög sjaldgæf sem gera það að verkum að barnið á ekki lífslíkur og það finnst mér annað mál, þá hef ég í raun ekkert um það að segja lengur.

Ég áttaði mig á því að það skipti mig ekki máli, ég gæti ekki tekið þá ákvörðun sjálf hvort barnið mitt myndi fá að lifa eða deyja ef það hefði einhverjar lífslíkur utan míns líkama, barnið sem ég er spennt fyrir og er strax farið að þykja vænt um. Ég gæti ekki fyrirgefið sjálfri mér að eyða barninu mínu út frá líkindamati.  En vil samt taka það fram að það er bara MÍN líðan, gangvart mér sjálfri og mínu barni, það segir ekkert til um hvernig öðrum þarf að líða og það þýðir heldur ekki að ég dæmi þá sem taka þessa ákvörðun, ég einfaldlega treysti mér bara ekki í það sjálf.

Þá kemur að öðru, mitt álit litaðist svolítið af samfélaginu, í dag er það bara eðlilegt að konur fari í líkindamatið og hnakkaþykktarmælinguna, sem er allt í góðu en við verðum að muna að við höfum val. Ég hafði, áður en ég fór í sónarinn ákveðið að fara bara í hnakkaþykktina til þess að við gætum undirbúið okkur ef barnið t.d. greindist með Downs undir komu þess og aukna ummönnun.Ég hélt að það væri bara í fínu lagi að fara bara í hnakkaþykktarmælinguna.

Ég mætti svo í sónarinn með manninum mínum og ég sagði ljósmóðurinni að ég væri að spá í að fara bara í hnakkaþykktarmælinguna, ekki líkindamatið. Ég fékk það svar að það væri bara algjörlega fáránlegt með öllu og að þá gæti ég bara alveg eins sleppt þessu, það væri bara fáránlegt að fara í hnakkaþykktina en ekki líkindamatið. Hún byrjaði setninguna á því að segja “maður fer ekki yfir hálfa á og hættir svo.”

Þetta sló mig rosalega og ég varð rosalega hissa. Ég hélt að það væri bara eðlilegt að fara bara í hnakkaþykktarmælinguna og engin skilda að fara í blóðprufuna með. Það er jú raunin, það er ekki skilda að gera neitt af þessu en hún sagði þetta alveg umbúðarlaust og var svo sannarlega ekki hlutlaus þegar hún sagði mér það að það væri bara algjört rugl að fara ekki í líkindamatið líka. Ég sagði henni að ég hefði nú val um þetta, ég þyrfti ekkert yfir höfuð að fara í þessa hnakkaþykktarmælingu. Hún sagði “jájá þú hefur val en ég meina, til hvers ertu þá að mæta í mæðraskoðun ef þú lítur á þetta þannig? maður fer ekkert bara yfir hálfa á, ef þú ætlar í hnakkaþykktina ferðu auðvitað í líkindamatið líka”

Ég fór mikið að hugsa út í þetta eftir á. Það er nú oft þannig að þegar maður er í aðstæðunum, viðkvæmur fyrir og einhver sérfræðingur talar svona við mann þá getur maður orðið hálf orðlaus. Ég hef lent í því nokkrum sinnum á þessari meðgöngu að fá misvísandi skilaboð. Ég hef líklega bara verið óheppin, nokkrar konur sem lentu í sömu ljósmóðurinni sögðu mér sömu söguna eftir að ég ræddi þetta við þær. Ég held að flestir séu bara mjög færir í sínu starfi og reyni ávallt að gæta hlutleysis í þessum málum, það er líka mikilvægt. Þetta er val foreldranna. Ég varð bara fyrir vonbrigðum og mér fannst þetta ekki fallega sagt við konu sem var að reyna að afla sér upplýsinga og taka meðvitaða sjálfstæða ákvörðun.

Munum bara að þetta er okkar barn, okkar val og við ráðum því alfarið hvort að við viljum fá nákvæmar líkur á því hvort eitthvað sé að barninu okkar. Það eru ekki allar konur sem hafa áhuga á því og það ber að virða!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here