Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla kynnti í dag til sögunnar breytingar á QuizUp spurningaleiknum sem fela í sér að allir notendur leiksins geta héðan í frá búið til eigin spurningar og spurningaflokka. Leikurinn er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum með 75 milljón skráða notendur en um 7 milljónir viðureignir fara fram á hverjum degi innan hans.
My QuizUp mun gera notendunum kleift að búa til spurningar um allt á milli himins og jarðar, hvort sem þær tengjast sérhæfðum áhugamálum þeirra og hugðarefnum eða jafnvel þeim sjálfum. Geta þeir í kjölfarið deilt spurningunum og flokkunum með vinum, ættingjum og öðrum leikmönnum í QuizUp. Í þessu felast endalausir möguleikar fyrir jafnt einstaklinga sem hópa eða fyrirtæki, t.d. spurningar um afmælisbörn í afmælum, um fyrirtæki og starfsfólk í starfsmannafögnuðum eða hópeflum, um brúðhjón í brúðkaupum, um námsefni í kennslustund o.s.frv.
Búa þarf til spurningarnar og spurningaflokkana í borð- eða fartölvu á quizup.com en notendur QuizUp geta samstundis spilað spurningaflokkinn þinn, hvort sem er í tölvum eða QuizUp-appinu og komist á topplistann í honum, skipst á skoðunum og deilt flokknum á öðrum samfélagsmiðlum. Sem stendur eru 750 þúsund spurningar í 1.500 flokkum í leiknum en búast má við því að þessar tölur muni margfaldast með tilkomu My QuizUp.
Breytingin hefur einnig í för með sér að hægt verður að spila QuizUp á öllum tungumálum heims. Tungumálin voru áður aðeins sjö. Frá og með í deginum í dag verður því hægt að spila leikinn, sem drifinn er áfram af íslensku hugviti, einnig á íslensku.
„Við höfum alveg frá upphafi viljað gera notendum QuizUp kleift að búa til eigin spurningaflokka. Með því að opna QuizUp fyrir þeim erum við að umbylta því hvernig efnið í leiknum er búið til og geta notendurnir nú með auðveldum hætti samið spurningar og stofnað samfélög um hvað sem er, og í raun allt sem þeir vilja. Við getum ekki beðið eftir að sjá hvað notendurnir búa til. Það hefur sýnt sig hjá mörgum stærstu netfyrirtækjum heims að vinsældir þeirra stórjukust þegar þeir gáfu notendum frjálsar hendur. Þetta er án nokkurs efa stærsta breyting sem gerð hefur verið á QuizUp og við teljum að fólk eigi eftir að verða afar ánægt með hana”, segir Þorsteinn Baldur Friðriksson stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.
Síðan QuizUp var hleypt af stokkunum haustið 2013 hafa um 75 milljónir notenda skráð sig til leiks. Um 7 milljónir leikja eru spilaðar á hverjum degi en undanfarin tvö ár hafa keppendur svarað alls um 50 milljörðum spurninga.