Emma Cadywould barðist við mikið fæðingarþunglyndi en hún átti 6 mánaða gamlan son. Hún hafði upplifað margar svefnlausar nætur og átti erfitt með að ná tökum á vanlíðaninni. Hún hafði mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni og eiginmanni, Steve Cadywould en þunglyndið tók yfir líf hennar.
Emma fékk taugaáfall eftir margar vikur af svefnleysi og talaði um að hún gæti ekki hugsað sér að lifa lengur, hún vildi frið. Hún gekk til sálfræðinga og geðlækna og tók þunglyndislyf við fæðingarþunglyndinu en því miður tók þunglyndið yfir líf hennar og hún endaði líf sitt.
Emma stökk fyrir lest og lést af áverkum sínum. Daginn örlagaríka fékk hún sér morgunmat með eiginmanni sínum, sem segir að hann hafi ekki tekið eftir neinu óvenjulegu þennan dag. Hún klæddi litla drenginn og keyrði hann í ungbarnaleikskóla. Eiginmaður hennar segir að hún hafi ekki tjáð sig um það við sig að hún vildi enda líf sitt og að þetta hafi komið honum í opna skjöldu þrátt fyrir að hún hafi þjáðst af þunglyndi.
Sonur hennar vaknaði stundum 20 sinnum yfir nóttina og hún var orðin vannærð og þjáðist af miklu svefnleysi. Hún er talin hafa látist samstundis af áverkum sínum. Í blóði hennar fundust lyfseðilsskyld þunglyndislyf.
Eiginmaður hennar sagði frá því á Dailymail að það hefði verið henni erfitt að þurfa að fara heim af spítalanum aðeins 4 tímum eftir fæðingu og þetta hefði allt saman verið mikið sjokk fyrir konu hans. Hann segir að þau hefðu átt erfitt með að koma sér upp rútínu. Barnið hefði vaknað 10-20 sinnum á hverri nóttu og að hún hefði átt erfitt með svefnleysið og endalausu gjafnirnar, dag og nótt, hann segir að svefnleysið hafi haft mikil áhrif á hana.
Fæðingarþunglyndi er lúmskur óvinur
Systir Emmu sagði að fæðingarþunglyndi gæti verið lífshættulegt eins og í tilfelli systur sinnar. Hún segir að fjölskylda hennar muni minnast hennar með hlýjum hug.
Hjónin skiptust á að hugsa um barnið en þegar þunglyndið var orðið sem alvarlegast tók eiginmaður hennar við og Emma fékk að vera hjá foreldrum sínum.
“Ég hugsaði um hann, það hlaut að koma að þeim tímapunkti þar sem hún gat ekki meir. Líkamlega var hún heilbrigð en andlega var hún mjög veik. Þegar við leituðum til sálfræðinga sem hjálpa fjölskyldum í þessum sporum fengum við þau ráð að betra væri að konan væri heima umvafin fjölskyldu en á spítala.”
Emma eyddi seinna 11 dögum á spítala þar sem hún fór í viðtöl hjá geðlæknum og sálfræðingum. Systir Emmu segir:
“Við fjölskyldan misstum systur mína sem við elskuðum og dáðum, vegna sjúkdóms sem er gert alltof lítið úr, það þarf að taka fæðingarþunglyndi alvarlega.”
“Hún fór að efast um hæfni sína til að vera móðir. Mér leist ekki á hversu illa henni leið. Í stuttu máli vildi hún fyrra líf aftur. Líf þar sem hún fékk reglulegan svefn og gat gert það sem hana langaði til. Hún svaf laust og svefnleysið hafði mjög slæm áhrif á andlega heilsu hennar.” Hún segir að fjölskylda hennar hafi stutt hana en hún áttaði sig ekki á því sjálf fyrst um sinn að hún þjáðist af fæðingarþunglyndi. Lífslöngunin var horfin, sjálfsálit hennar og sjálfstraust.
Hún segir að fjölskyldan minnist hennar fyrir þá yndislegu manneskju sem hún var. Hún barðist við hræðilega erfið veikindi sem tóku yfir líf hennar. Hún var ekki með sjálfri sér eins og margar konur sem þjáðst hafa af fæðingarþunglyndi þekkja. Sem betur fer fá margar konur þá hjálp sem þær þurfa og geta náð heilsu á ný.
“Emma var falleg og skörp og naut lífsins til hins ítrasta. Hún hafði góðan húmor og gat komið öllum til að hlæja, Emma vann mikið og náði langt á þeim 32 árum sem hún fékk að lifa. Hún elskaði fjölskyldu sína og var yndisleg dóttir, systir og móðir. Emma var hreinskilin og sagði hlutina umbúðalaust.”