Frá því að ég man eftir mér þá hef ég átt þessa dúkku. Þessi dúkka var einu sinni með gulan búk og hún var góð, þannig að hún fékk nafnið Góða Gul. Hún var og er yndislegur félagi, fylgdi mér í gegnum súrt og sætt og svaf alltaf í fanginu á mér. Ég átti líka yndislega ömmu, sem var alltaf prjónandi eða heklandi og Góða Gul á ófáa kjóla eftir hana. Amma hafði einhverntímann gefið henni jólagjöf, rauða heklaða kápu og sokka í stíl, pakkað inn í fallegan jólapappír. Næstu jól komu og amma kom með pakka handa mér og systkinum mínum en engan pakka handa Góðu Gul. Það kom rosalega skrítinn svipur á ömmu þegar ég spurði hana hvar pakkinn hennar Góðu Gul væri, hún hafði greinilega ekki ætlað að gefa henni gjöf, en næsta dag birtist pakki undir jólatrénu merktur Góðu Gul og í honum var rosalega fallegur kjóll. Þannig var amma, algjör töfrakona.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.