Ég bugaðist á föstudaginn; eitthvað brast innra með mér – fíngerða taugin sem liggur frá hjartanu og í átt að eldhúsinu. Engifer og döðlur uppurnar, hvítlaukur á þrotum og ekkert ferskt pasta í húsinu. Kjúklingalundirnar minning ein og svartosturinn órafjarri. Ég bugaðist, lét undan og læddist í strigaskónna.
Soltið seðlaveskið laut í lægra haldi fyrir hráefnalostanum, þeirri dónalegu löngun að gæla við rekkana í matvöruversluninni, stúdera ólíkar brauðgerðir og gleymast með öllu mitt í hafsjó innfluttra kaffibauna, renna saman við dúnmjúka og ilmandi tepokana og verða eitt með framandi innihaldsefnum frá öllum heimshornum um stund.
Ég “impróvisera” mikið í eldhúsinu. Kann illa að fylgja uppskriftum, skil ekki mælieiningar en fylgi tilfinningunni. Smakka mig til. Fabúlera. Þannig varð jólamaturinn að veruleika um síðustu jól. Ég man ekki lengur hvernig ég hóf leika en þegar upp var staðið stóð ég uppi með ofnbakaðan hunangsgljáðan kalkún með döðlum, engifer, hvítlauk, appelsínum, eplum og dass af engifer.
Döðlur fela enda í sér svarið við öllu og útkoman var hreint út sagt unaðsleg.
Hér má sjá eldhúsið mitt; biðjandi dansgólfið og frönsku svalirnar:
Þegar inn í matvöruverslunina var komið; gósenland hráefna … fyrirheitna land föstudagsins … læddust fáránlegar hugsanir að mér. „Af hverju kaupir fólk tilbúnar pizzur” – „Hvers vegna kann ég ekki að gera pestó” – „Getur maður orðið feitur af kirsuberjaáti” -„Mmmm! Ég elska maís” – „Hvar get ég keypt heimaslátrað” – „Oh, mig langar í Kitchen Aid” – „Héðan í frá hakka ég nautalundir og geri úr þeim hamborgara”.
Mitt í ævintýraskóginum, þar sem ég hef búið okkur Rassa litla heimili, kaupum við fersk kirsuber í feitum pokum, bökum okkar eigin pizzur og tínum gjarna jarðaber á nálægum ökrum yfir sumartímann. Einhver sagði að félagsleg einangrun væri versta fangelsun sem nokkur gæti upplifað. Því er ég ekki sammála. Einsömul í öðru landi hef ég nefnilega lært að elda frá grunni, elta tilfinninguna í stað þess að grúfa mig ofan í bækur og tengja saman hráefni sem mig hefði aldrei rennt í grun að gætu átt samleið.
Ég tek gjarna sporið í eldhúsinu. Kann hins vegar illa við að gera slíkt hið sama í matvöruverslunum. Enda iðulega mannmergð við kassana á föstudögum. En það er ekkert leyndarmál að ég hef stigið mín fegurstu spor í félagi við sleifar og potta. Sungið falsettur ofan í sósur og tekið djúpar dýfur við ofnbökuðu formin.
Svona töfra ég fram hvern réttinn af fætur öðrum. Drengurinn minn segir að ég sé góður kokkur og það gleður gamla móðurhjartað. Sjálfri finnst mér ægilega gaman að elda í dag. Ég, konan sem brenndi við kartöflur áður en ég steig fæti á meginlandið, bulla nú upp hvern réttinn af fætur öðrum og útkoman er að sjálfsögðu aldrei sú sama.
Hér hef ég sett í hráefnablönduna heima, stormað til glaðbeitt til kærrar vinkonu og reitt fram Brunch:
En það gerist iðulega á föstudögum, í lok hverrar vinnuviku, þegar taugin sem liggur frá hjartanu og inn í eldhús brestur. Mér er alveg sama þó kökusneiðar séu seldar á 1250 krónur á gamla Íslandi. Ég hef misst alla trú á tilbúnu bakkelsi og hef endurvakið sunnudagsboðin, finnst fátt skemmtilegra en að reiða fram dúk – opna dyrnar rjóð í kinnum klukkan þrjú og bjóða nágrönnum smávægilegan tesopa.
Ég elska föstudaga, litlu augnablikin í lok hverrar vinnuviku og þann ljúfa sið að bjóða vel völdum einstaklingum í sunnudagskaffi með dágóðum fyrirvara. Egna upp spennuna, setja stút á munninn og draga svo andann á munúðarfullan máta meðan ég handfjatla desilítramálið í eldhúsinu.
Þú getur gert þetta líka. Allt sem til þarf er örlítil innlifun, dass af ævintýramennsku og Donna Summer. Því, sjáðu til, það eru öll þessi litlu augnablik sem gera hversdaginn svo fallegan. Ilmurinn af apríkósutepokanum. Teflonhúðin á djúpu pönnunni sem notuð er í pönnukökubaksturinn. Áferðin á vanilluþykkninu sem trónir í kryddhillunni.
Þó ég fari sjaldnast eftir uppskriftum, luma ég á ýmsum leyndarmálum. Og einhver þeirra eru varðveitt á blaði. Flaggskipið eru krydduðu graskerspönnukökurnar sem ég tengi iðulega við ævintýralegan heim arabísku sagnanna sem ég las þegar ég var lítið barn; lífshættulegum leik Sheradsjei við hinn blóðþyrsta soldán sem hélt henni fanginni í 1001 nótt og kreisti út úr henni undursamlegustu sögur.
Þegar svo ber við og það er ekkert leyndarmál að ég les bækur, tek ég gjarna fram kryddin mín, helli hveiti í skál og byrja að baka. Ég veit ekki hvers vegna ég tengi þessa uppskrift við lostafenginn leik austurlensku ambáttarinnar við miskunnarlaust yfirvaldið, en svona getur nú hugurinn hlaupið með mann í gönur.
Að því sögðu, elsku fólk, er ekkert annað eftir. Ég hef ákveðið að opna box Pandóru, senda pönnukökurnar út í heiminn og veita þeim frelsi til athafna á litríkum eldhúsborðum – megi uppskriftin hér að neðan blómstra undir dillandi hlátri vinkvenna og gleðja svanga maga.
Graskerspönnukökur og whiskeylagað hlynsíróp með vanillukeim
Pönnukökudeig:
4 dl hveiti
4 msk dökkur púðursykur
4 tsk lyftiduft
½ tsk allrahanda
1 ½ tsk malaður kanell
¼ tsk malaður engifer
¼ múskat
½ tsk salt
3 dl mjólk
3 dl súrmjólk
2 ½ dl maukað grasker
2 egg
6 msk jurtaolía
Whiskeylagað hlynsíróp með vanillukeim
2.5 dl hlynsýróp
¼ dl viskí
1 tsk hreint vanilluþykkni (vanilla extract)
Hrærið þurrefnum saman í stóra skál; hveiti, púðursykri, lyftidufti, allrahanda, kanel, engifer, múskati og salti. Blandið þurrefnum vel saman.
Takið því næst fram aðra, örlítið minni skál og hrærið vel saman mjólk, graskerinu, 1 tsk af sykri, 1 msk af sítrónusafa og setjið í lítinn pott. Látið malla á meðalhita í u.þ.b. 15 mínútur og hrærið varlega í pottinum á meðan. Takið af lokum af hellunni, bætið í súrmjólk, eggjum og olíu.
Gerið nú örlitla dæld í þurrefnablönduna og hellið innihaldinu úr minni skálinni varlega saman við, hrærið jöfnum höndum og gætið þess að öll hráefnin blandist vel saman. Látið standa á borðinu í nokkrar mínútur og hrærið svo varlega í aftur.
Hitið teflon-húðaða pönnu upp að meðalhita á eldavélinni. Ágætt er að miða við einn desilíter af deigi út á pönnuna í hvert sinn. Ágætt er að setja smávægilega smjörklípu út á pönnuna fyrir hverja pönnuköku. Látið gullinbrúnast á neðri hlið og snúið svo við á pönnunni í 1 – 2 mínútur.
Berið fram með whiskeylöguðu hlynsýrópi.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.