Langi Jón er mögulega eitt besta sætmetið undir sólinni. Það er ekki algengt að sjá hann í bakaríum nú til dags. Sem er bæði gott og slæmt. Gott af því ef hann væri auðfáanlegur væri ég uppnefnd Feiti Jón.
Mér til mikilla ama komst ég svo nýlega á snoðir um að Langa Jón má auðveldlega útbúa í eigin eldhúsi. Þessi stórfína uppskrift kemur af blogginu hennar Tinnu Bjargar. Hún er sælkeri mikill og er bloggið hennar dásamlegur vettvangur fyrir þá sem gaman hafa að hvers kyns matreiðslu. Sama hvort um er að ræða hollustu eða eitthvað stórkostlegt og svínfitandi.
Langi Jón
3 msk þurrger
10 msk sykur
450 ml volg mjólk
3 egg
675 g hveiti
1 tsk salt
150 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar
1000 ml sólblómaolía til djúpsteikingar
- Leysið ger og 1 1/2 msk af sykri upp í 6 msk af vel volgri mjólk. Leggið rakt viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og látið hefast í 15 mínútur.
- Þeytið egg í skál og leggið til hliðar.
- Blandið saman hveiti, salti og 8 1/2 msk af sykri í hrærivélarskál. Mótið holu í miðja hveitiblönduna og hellið gerdeiginu ofan í ásamt rest af mjólk. Hrærið saman og bætið þeyttum eggjum við, bræddu smjöri og vanilludropum. Leggið rakt viskastykki yfir hrærivélarskálina og látið hefast í 45 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
- Sáldrið vel af hveiti á borðið og hnoðið deigið upp úr því með höndunum í um 5 mínútur. Fletjið deigið út þannig að það verði 2-3 cm þykkt og skerið út hæfilega stóra Langa Jóna.
- Setjið Löngu Jónana á smjörpappírsklæddar ofnskúffur og leggið viskastykki yfir. Látið hefast í 30 mínútur á heitum stofuofni eða öðrum hlýjum stað þar til þeir hafa tvöfaldast.
- Hitið olíu í stórum potti þar til hún hefur náð 180-190° hita.Hægt er að prófa hana með því að láta brauðbita ofan í, ef hann verður gullinbrúnn eftir um það bil 30 sekúndur er olían tilbúin. Passið að hún hitni ekki of mikið.
- Leggið nokkra Langa Jóna varlega ofan í olíuna og steikið í 3-5 mínútur. Takið upp úr pottinum með þar til gerðum djúpsteikingarspaða og leggið á eldhúspappírsklætt fat.
- Uppskriftin er svolítið stór en mér finnst gott að frysta nokkra Löngu Jóna til að eiga. Þá þarf bara að útbúa vanillufyllingu og karamelluglassúr þegar sætindaþörfin kemur.
Vanillufylling
- Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Þeytið svo Maizenamjöli og hveiti saman við og leggið til hliðar.
- Hitið mjólk og rjóma í potti. Kljúfið vanillustöng, skafið úr henni fræin og bætið í pottinn. Látið suðuna koma upp á miðlungs hita þar til fer að krauma og hrærið stanslaust á meðan. Hellið heitu mjólkinni rólega saman við eggjablönduna, um það bil 1/4 bolla í einu og þeytið hratt með pískara á meðan. Með því að bæta alltaf smá mjólk rólega saman við eggjablönduna í einu hækkar hitastig eggjanna án þess að þau eldist. Hrærið vanilludropum saman við fyllinguna og hitið aftur á lágum hita. Hrærið áfram hratt með pískara í 1-2 mínútur eða þar til fyllingin verður nógu þykk til að hún leki ekki.
- Stingið mjóum hníf eða prjóni í gegn um Löngu Jónana eftir endilöngu og þrýstið til hliðanna til að búa til holrúm. Setjið vanillufyllinguna í sprautupoka og sprautið inn í þá. Ég sprauta inn í báða enda svo fyllingin nái örugglega inn að miðju.
Karamelluglassúr
2 dl rjómi
3 tsk vanilludropar
2-3 dl flórsykur
- Sjóðið saman smjör, púðursykur, rjóma og vanilludropa.
- Látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur og kælið aðeins. Hrærið flórsykri saman við, byrjið á 1 dl og bætið svo við þar til glassúrinn er orðinn hæfilega þykkur.
- Smyrjið glassúrnum á Löngu Jónana eða dýfið þeim í áður en hann byrjar að storkna.
Síðan má njóta. Njóta, njóta og njóta.
Tengdar greinar:
Æðisleg skúffukaka með kaffikremi af matarbloggi Tinnu Bjargar – Uppskrift
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.