Uppskriftir af allskonar sultum/hlaupi

Mér finnst alveg einstaklega skemmtilegt að tína ber. Hvaða ber sem er eiginlega. Ég hef oftast tínt bláber og krækiber í kílóavís og frysti þau sem ferskust og ákveð síðar hvort ég noti þau bara í þeyting, bý til sultu eða hlaup. Stundum nota ég bláberin í amerískar pönnukökur, henti bara nokkrum á ofan á degið á pönnunni.

Hér er nokkrar uppskriftir sem mér finnast alveg æðislegar. Man ekkert hvar ég fékk þær en væntanlega frá móður minni.

Krækiber eru að margra mati ekki góð. Mér finnst þau æðislega góð! Þau eru safarík, svolítið beisk og svakalega holl. Ég ákvað að prófa að gera krækiberjahlaup fyrir einhverjum árum og það er geggjað gott. Hratið þurrkaði ég í ofni á lágum hita og notaði í múslí. Hvort tveggja var svakalega gott. Sykurinn kemur góða bragðinu út á krækiberjunum og ég mæli eindregið með því að þið látið á þetta reyna.

Krækiberjahlaup

  • 1 l krækiberjasafi 
  • 1 kg sykur 
  • 1 og hálfur pakki Melatin
  • safi úr hálfri sítrónu

Ég myndi segja að það sé best að setja berin í pott og leyfa suðunni að koma upp með örlitlu vatni í botninum. Þá verða berin meyr og auðveldara að kreista úr þeim safann. Ég fórnaði bara einu viskastykki í að sía safann frá hratinu. Ég festi stykkið ofan á stóran pott með þvottaklemmum og leyfði þessu að leka í gegn. Að lokum kreisti ég stykkið af öllum lífs og sálarkröftum og setti hratið beint á smjörpappír í ofnskúffu.

Safinn fer í pott og þegar suðan kemur upp setjum við Melatin í pottinn og þegar þetta fer að sjóða, blandið sykri út í og sjóðið í 2 mínútur. Hellið svo í hreinar og soðnar krukkur.

*Ef þið viljið sleppa Melatin-inu er mjög gott að mylja chia fræ og hella í safann þegar hann er á hellunni. Chia fræin eru náttúrulega þykkjandi og auðvitað afskaplega holl.

Rabarbarasulta

  • 1 kg rabarbari
  • 800 gr sykur

Ég setti bara rabarbara í pott með sykri og eins og hálfan bolla af vatni (gerði reyndar úr 6 kg af rabarbara). En bara smá vatn í botninn svo rabarbarinn neðst brenni ekki. Leyfið að sjóða þangað til hún þykknar. Gott er að miða við að ef þú stingur sleif í miðjan pottinn að hún standi þar kyrr. Þá er sultan tilbúin.

Bláberjasulta 

  • 1 kg bláber 
  • 700 g strásykur 

Allt sett í pott, með smá vatn í botninum látið suðuna koma upp og sjóðið í 10 mínútur. Það þarf ekki hleypi í bláberjasultu frekar en fólk vill. Það er gott að tína græn bláber með þessum bláu og sjóða þau með í sultuna því þau virka sem hleypir. Hellið svo í hreinar og soðnar krukkur.

Rifsberjasulta

  • 1800 gr rifsber
  • 1000 gr sykur
  • 120 ml vatn

Allt sett í pott, með smá vatn í botninum látið suðuna koma upp og sjóðið í 30 mínútur og veiðið froðuna ofan af og hellið svo í hreinar og soðnar krukkur.

SHARE