Uppsölu- og niðurgangspestir

Uppsölu- og niðurgangspest er það sem í daglegu tali er oft kallað gubbupest og lýsir sér með ógleði, uppköstum, kviðverkjum og niðurgangi og koma einkennin oftast skyndilega. Smit berst ýmist frá sýktum einstaklingi eða sýktu vatni eða matvælum. Einkennin eru tilkomin vegna viðleitni líkamans til að losa sig við eiturefni, veirur eða bakteríur. Misjafnt er hversu lengi einkennin vara, eða allt frá 2–9 daga. Í flestum tilfellum er ekki um hættuleg veikindi að ræða, en þó verður að huga sérstaklega vel að börnum, gamalmennum og sjúklingum því þessir einstaklingar geta veikst alvarlega.

Hverjar eru algengustu orsakir uppsölu- og niðurgangspesta?

Algengast er að uppsölu- og niðurgangspestir séu af völdum veira en geta þó einnig verið orsakaðar af bakteríum. Nauðsynlegt er að greina þarna á milli því uppsölu- og niðurgangspestir sem orsakaðar eru af bakteríum er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum. Þar sem veirur eru algengasti orsakavaldur uppsölu- og niðurgangspesta eru það fyrirbyggjandi þættir sem skipta mestu máli.

Hver eru einkenni uppsölu- og niðurgangspesta?

Einkennin geta verið misjöfn eftir því hver orsökin er, en uppköst og niðurgangur koma fyrir hjá flest öllum sjúklingum og ganga í flestum tilfellum yfir á 2 sólarhringum. Einkennin eru:

  • kviðverkir
  • ógleði
  • uppköst
  • niðurgangur
  • vöðvaverkir
  • hitavella

Hvernig er hægt að forðast uppsölu- og niðurgangspestir?

Það er ýmislegt hægt að gera til að forðast matarsýkingar og mikilvægt er að vera alltaf meðvitaður um þessa hættu þegar matvæli eru meðhöndluð.

Mikilvægt er að þvo sér reglulega og vel og vandlega um hendur. Ekki nota mataráhöld sem einhver annar hefur einnig notað.

Ef þið eru á ferðalagi í útlöndum, drekkið ekki neysluvatn nema þið séuð viss um að það sé í lagi.

Ísmolar eru frystir úr neysluvatni, forðist þá þar sem neysluvatn er ekki drykkjarhæft. Forðist neyslu hrárra matvæla.

Sjá einnig: Niðurgangur – Hvað er til ráða?

Hvenær er rétt að leita læknis?

Ef þú hefur ekki getað drukkið neinn vökva í meira en 24 klst.
Ef uppköst hafa staðið í meira en 2–3 daga.
Ef blóð er í uppköstunum.
Ef einkenni ofþornunar koma fram, s.s. þurrkur í munni, þvag verður dökkt á litinn.
Ef blóð er í hægðum.

Hvernig greinir læknir uppsölu- og niðurgangspestir?

Uppsölu- og niðurgangspestir greinir læknir með viðtali við sjúkling og skoðun og í sumum tilfellum getur reynst þörf á að fá blóðsýni og saursýni til rannsóknar.

Hver er meðferð við uppsölu- og niðurgangspestum?

Ekki reyna að borða fyrst eftir að einkenni koma fram, hvílið magann. Til að forðast ofþornun, reynið að sjúga ísmola eða frostpinna. Reynið að drekka eins mikið og mögulegt er og þá er oft gott að taka litla sopa. Vatn, kók eða sprite hentar vel.
Þegar ró er komin á meltingarfærin, byrjið þá varlega að neyta matar aftur, gott er að byrja með tekexi, ristuðu brauði, hrísgrjónum, eplum eða banana.
Forðist mjólkurvörur, matvæli sem innihalda mikið af fitu eða eru mikið krydduð, koffein, áfengi og nikotín.
Gleymið ekki hvíldinni, hún er mikilvæg meðan veikindi eru að ganga yfir.

Í þeim tilfellum þar sem uppsölu- og niðurgangspest er af völdum eiturefna gengur sýkingin yfir á 12–24 klst. Mikill vökvi ásamt söltum og steinefnum tapast við uppköst og niðurgang og því mikilvægt að drekka vel til að að líkaminn ofþorni ekki. Þeir sem eru að taka þvagræsilyf þurfa að fara sérstaklega varlega og í sumum tilfelllum er rétt að hætta töku þeirra meðan á veikindum stendur, það skal þó ekki gert nema í samráði við lækni.

Helsti fylgikvilli uppsölu- og niðurgangspesta er vökvatap og er því mikilvægt að bæta upp þann vökva, salt og steinefni sem tapast með uppsölu og niðurgangi. Ef svo mikil ógleði fylgir að sjúklingur getur ekki drukkið nægan vökva til að koma í veg fyrir ofþornun þarf að leiðrétta vökvatap með því að gefa vökva í æð og þarf sú meðferð að fara fram á sjúkrahúsi. Ekki er meðhöndlað með sýklalyfjum nema að um bakteríusýkingu sé að ræða.

Hverjar eru batahorfur?

Í langflestum tilfellum gengur matareitrun yfir á sólarhring en matarsýkingar af völdum baktería á um það bil viku og í flestum tilfellum nægir að meðhöndla með vökva, söltum og steinefnum.

Hverjar eru aukaverkanir?

Ofþornun er algengasta aukaverkunin. Aukaverkanir eru sjaldgæfar við matareitranir, en við matarsýkingar getur sýkingin farið út fyrir þarmana og sjúkdómurinn orðið alvarlegri og þarf þá að meðhöndla með sýklalyfjum.

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE