Út fyrir landsteinana – Nú verður hannað á fleiri stöðum í heiminum

Íslenska framleiðslufyrirtækið Sagafilm hefur selt formatið að raunveruleikaþættinum Hannað fyrir Ísland út fyrir landsteinana. Formatið heitir Hannað fyrir… (Design For…) og hefur verið gengið frá samningum um að framleiða þáttinn í Írlandi, Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Þegar talað eru um format er átt við þætti sem eru með fyrirfram ákveðna uppbyggingu óháð því hvar þeir eru búnir til í heiminum. Sem dæmi um format-þætti eru Idol, X Factor og MasterChef.

Verða meðframleiðendur

Er þetta í fyrsta sinn sem Sagafilm selur format að íslensku skemmtiefni til annarra landa. Þá er ekki verið að selja þættina sjálfa heldur uppskriftina að þeim sem Sagafilm á heiðurinn af ásamt fyrirtækinu 66°Norður. Sagafilm mun verða meðframleiðandi í bresku, írsku og sænsku útgáfunni af þáttunum.

Ótrúlega vinsæll þáttur

Hannað fyrir Ísland hefur verið afar vel tekið á erlendri grundu og var þátturinn meðal annars tilnefndur í tveimur flokkum á format-verðlaunahátíðinni C21 Media International Format Awards í fyrra. Fyrir þá sem ekki hafa séð þáttinn, þá snýst þetta um að íslenskir hönnuðir fá að spreyta sig og nýta reynslu sína í að hanna bestu útivistarflíkur sem völ er á. Þátturinn var unninn í samstarfi við 66°Norður en rík áhersla var lögð á notagildi fatnaðarins ásamt því að nýtískulegt útlit var haft að leiðarljósi.

Níu hönnuðir hófu keppni í þættinum en að lokum stóð einn uppi sem sigurvegari – hin hæfileikaríka Birta Ísólfsdóttir.

Hafa þróað íslensk formöt

Sagafilm er stærsta sjálfstæða framleiðslufyrirtæki landsins á sviði sjónvarpsþáttagerðar, sjónvarpsauglýsinga, kvikmyndagerðar, viðburða og efnis fyrir nýmiðla. Sagafilm er eina framleiðslufyrirtækið í íslenskum afþreyingariðnaði sem hefur reynslu af því að framleiða svonefnda format-þætti fyrir heimamarkaðinn. Meðal alþjóðlegra formata, sem framleidd hafa verið fyrir íslensku sjónvarpsstöðvarnar, eru WipeOut, X Factor, Idol-Stjörnuleit og MasterChef. Þá hefur Sagafilm einnig þróað íslensk formöt eins og Dans Dans Dans og Hæfileikakeppni Íslands.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here