Út fyrir þægindarammann – #sönnfegurð

Í dag langar mig að sýna ykkur myndband sem setti að mér hroll. Segja ykkur frá ákveðnu verkefni. Og fara svo langt út fyrir þægindarammann að ég fæ útbrot við tilhugsunina.
Byrjum á myndbandinu. Enda segir það megnið af því sem segja þarf.

Það er sláandi að lesa að 1 af hverjum 4 stúlkum, á aldrinum 18-25 ára, fari sjaldan eða aldrei í sund vegna óánægju með líkama sinn.Sjálf hef ég farið tvisvar í sund hérna á Íslandi síðastliðin 12 ár. Kannski 14. 12 eða 14 ár. Give or take. Eitt skipti var ég tilneydd í gæsun vinkonu minnar. Í hitt skiptið lét ég það eftir afkvæminu að fara með honum í sund. Í bæði skipti klæddist ég flotgalla. Eða svo gott sem.

Ég fór að vísu í Bláa lónið í síðustu viku. Ekki í sundbol. Ekki í bíkini. Nei, heldur var ég í hlýrabol með vel breiðum hlýrum og næstum skósíðum stuttbuxum af sambýlismanninum.

Ég er sífellt að reyna að sigrast á þeim komplexum sem hrjá mig. Og eins og ég hef oft sagt þá er ég nokkuð sátt í eigin skinni. Ég áttaði mig samt nýlega á því, að það á eiginlega bara við þegar búið er að hylja megnið af skinninu með einhverju fatakyns.

Mér hefur hingað til tekist að forðast aðstæður þar sem ég býð gestum og gangandi upp á mig fáklædda. Nema kannski inni í svefnherbergi. Þar eru svo sem ekki margir gestir. Og þar er ég líka drottning. Djók.

Að öllu gríni slepptu – með því að forðast aðstæðurnar þá forðast ég að horfast í augu við komplexana. 

Þetta er skítt. Það er skítt að fara ekki með barninu sínu í sund. Skítt að liggja ekki í heita pottinum eftir langan dag. Skítt að fara ekki í endurnærandi gufubað. Skítt að eyða ekki þeim sárafáu sumardögum sem við fáum einhversstaðar á sundlaugarbakka.

Af hverju geri ég það ekki?

Ég horfði lengi á mig í speglinum áðan. Ég er öll slitin. Frá öxlum og niður að hnjám. Ekki eftir barnsburð. Ó, nei. Heldur eftir að hafa eytt góðum 10 árum af lífi mínu í að þyngjast og léttast á víxl. Megrun á megrun ofan. Alltaf að reyna að passa inn í eitthvað form. Mæta útlitskröfum samfélagsins. Vera ekki á skjön við aðra.

Mér finnst húðin á mér slöpp. Lærin. Handleggirnir. Hálsinn.

Já, þarna stóð ég fyrir framan spegilinn og talaði illa um eigin líkama. Talaði mig niður. Bölvaði mér fyrir slæmar ákvarðanir á lífsleiðinni. Dró úr lífsgleði minni og sjálfsöryggi á hraða ljóssins.

Þvílík andskotans brenglun.

 

Já, ég tók myndir. Sem mig svimar dálítið við að setja hingað inn. Af hverju geri ég það þá? Af því þegar ég skoðaði mig á tölvuskjánum þá brá mér. Það mætti mér ekki sama kona og í speglinum.

Þessi slit eru ekki næstum eins sýnileg og þegar ég grandskoða mig í flennistórum spegli. Klíp mig fram og til baka. Ber mig saman við einhverja óraunhæfa mynd í höfðinu á mér.

Lærin á mér eru ekki eins og tómir pokar. Sem hingað til hefur verið ein mín helsta afsökun fyrir því að geta ekki klæðst sundfötum.

Ég er með ósköp eðlilegan háls. Fína handleggi.

Sennilega myndi ekki nokkur maður líta tvisvar í áttina að mér ef ég sprangaði um á sundlaugarbakka. Þetta er allt í höfðinu á mér. Allskonar óraunhæfar kröfur og ímyndir sem ég hef búið til með hjálp frá utanaðkomandi áhrifum.

Já, þetta er að verða lengsta bloggfærsla sem ég hef skrifað. Sýnið mér þolinmæði. Ég fækkaði fötum. Ég á það inni.

Þá er það verkefnið sem ég nefndi hérna í upphafi. En það nefnist #SönnFegurðEr það ætlað til þess að stuðla að bættri líkamsímynd stúlkna og kvenna á Íslandi. Sem veitir augljóslega ekki af. Útlitsviðmið okkar verða sífellt brenglaðri og óraunhæfari. Viðmið sem engin okkar á möguleika á að uppfylla. #SönnFegurð vísar til þess að fegurðina má finna allsstaðar. Í öllum útgáfum. Að vera sáttur í eigin skinni er það sem er virkilega fallegt.

Eins og þið sáuð í myndbandinu renna 8 krónur af öllum seldum Dove vörum til The Body Project sem vinnur að bættri sjálfsmynd ungra kvenna á Íslandi. En The Body Project er líkamsmyndarnámskeið sem efla á gagnrýna hugsun ungra kvenna og auka sátt þeirra í eigin skinni. Dove ætlar að styrkja þetta starf þannig að haustið 2015 verði hægt að bjóða stúlkum í framhaldsskólum landsins á slíkt námskeið. Þeim að kostnaðarlausu.

Þetta námskeið hefur reynst hafa mjög jákvæð áhrif á líkamsmynd og marktækt fækkað átröskunartilfellum.

Ég vildi óska þess að svona átak hefði verið í gangi þegar ég var í framhaldsskóla. Mögulega hefði það forðað mér frá óþarfa kvöl og angist.

Ég vona að einn daginn verði rúsínuputtar og óþægindin við að fá vatn upp í nefið helsta áhyggjuefni ungra kvenna sem hyggja á sundferð.

Það er mikilvægt að læra að elska sjálfan sig. Fáklædda og fullklædda.

Mitt fyrsta skref er sundferð í dag. Ef afkvæmi mitt steindeyr ekki úr taugaáfalli við það að ég eigi frumkvæðið að slíkri ferð.

Lesið ykkur endilega meira til um verkefnið hérna. Ég reyndi að útskýra í stuttu máli. Það tókst ekki.

Heyrumst.

SHARE