Útgeislun þín er svo mikil að friðarsúlan fölnar í samanburði

Sigga spáir fyrir Maríu Ólafsdóttur sem fer til Vínar fyrir hönd Íslands til að keppa í Eurovision söngkeppninni.

Þversumman af fæðingardegi Maríu er 26, þar af leiðandi er hún talan 8 í indverskri talnaspeki.
Talan 8 táknar líf og dauða, enda er hún endalaus. María okkar er þessi týpa sem þarf alltaf að hafa mikið fyrir stafni og brjálað að gera. Helst á öllum vígstvöðvum.

Það er í eðli áttunar að hafa hæfileika á mjög mörgum sviðum og það eina sem hún þarf að gera, helst snemma á lífsleiðinni, er að ákveða hvað henni finnst skemmtilegast. Áttan, eða María okkar, þrífst á fólki og orkunni sem það gefur að vinna í hópum. Hún vill helst aldrei hafa dauðan tíma til að hanga heima og hugsa. Það er nefnilega eitt með hana Maríu, og þessar yndislegu áttur, það er ótrúlega algengt að ef þær draga sig í hlé, eða eru mikið heima, tekur það núll eina að rífa sig niður og fara að hafa áhyggjur að hreinlega öllu. Þeim finnst þá oft að þær hefðu frekar átt að gera þetta heldur en hitt, taka þessari áskorun frekar en hinni og svo framvegis. Svo ráðið sem ég gef ykkur áttunum er að vera sífellt að gera eitthvað og hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Þá er þetta hamingjusamasta talan.

Elsku María mín, þar sem þú ert vatnsberi, krúttsprengjan mín, þá eru mestar breytingar í kringum afmælisdaginn þinn. Það eru þín áramót. Nú ert þú akkúrat að fara á tímabil þar sem þú munt vekja svo mikla athygli, og útgeislun þín verður svo mikil, að friðarsúla Yoko Ono fölnar í samanburði.

Eins klár og þú ert, ertu samt mjög góð í að finnast ekki mikið til þess koma. Þú getur verið svolítið mikill gagnrýnandi. Þar sem þú vilt vera góð við alla skiptir það mestu máli hvaða hirð, eða fólki, þú ætlar að raða í kringum þig næstu 3 árin. Þú ert komin til að sjá og sigra, gefðu þér engan tíma til að hugsa hlutina tvisvar. Þú ert nefnilega undir sérlegri lukkustjörnu í maí og getur verið alveg róleg, þó þú hafir brjálað að gera.

Þú átt líka eftir að vekja brjálaða athygli annars staðar erlendis frá, út af þessu eða öðru, mundu bara að gera góða samninga fyrir þína hönd. Ástæðan fyrir því að þú nærð svo langt í lífinu að þú ert svo ótrúlega þægileg mannseskja María mín. Allir elska að vinna með þér og það er lykill þinn að farsældinni.

Til hamingju og ég hlakka til heyra í þér.

 

 

SHARE