Vafasöm húðumhirða – góð ráð

Ert þú sek um eitthvað af neðangreindu? Við teljum okkur flestar með góðar venjur hvað varðar húðumhirðu, en stundum bara gleymir maður sér eða er of þreyttur eða upptekinn eða ekki meðvitaður um mistökin og furðar sig svo á slæmu ástandi húðarinnar. Rennum aðeins yfir þetta.

1. Skrúbbun

Allt í góðu að skrúbba MJÚKLEGA yfir andlit og líkama. En að nudda og skrúbba fast er alls ekki í lagi. Það getur þurrkað upp náttúrulegar olíur húðarinnar og í raun valdið því að hún verður verri, bólótt, þurr og flekkótt. Farðu varlega og þá verður þetta allt í lagi.

2. Að hreinsa ekki bursta og vörur

Hugsaðu um allt sem snertir á þér andlitið. Sólgleraugu, koddaver, síminn og förðunarburstar. Andlitið á okkur snertir svo margt sem við kannski pössum ekki upp á að þrífa reglulega og erum því að bera bakteríur, skít og olíur í andlitið á okkur .

3. Að fara ekki í sturtu eftir ræktina

Það er stundum freistandi að fresta sturtunni eftir ræktina, t.d. bara þangað til maður kemur heim. Þetta geta verið mistök. Húðin er sveitt og opin og því er best að drífa sig úr sveitta gallanum og skoppa í sturtu.

4. Að sofa ekki nóg

Hljómar kannski undarlega að svefnleysi geti haft áhrif á húðina, en langvarandi svefleysi getur ýtt undir framleiðslu á stress-hormóninu cortisol, sem getur valdið bólum og flekkum. Farðu snemma í háttinn (mundu eftir að skipta um koddaver reglulega!) og húðin mun þakka þér.

5. Hendur og hár eru framan í þér

Við vitum að það er slæmt að fikta endalaust í andlitinu á okkur en samt gerum við það oft óafvitandi! Bara að hvíla andlitið í lófanum gæti verið saklaust en um leið erum við að klína olíu og skít (t.d. af lyklaborði!) framan í okkur. Hárvörur sem við notum geta líka stíflað svitaholur og því best að reyna að halda hárinu frá andlitinu sem mest við megum.

6. Óþolinmæði gagnvart nýjum vörum

Við erum oft spennt að prófa nýjar húðvörur og væntum tafarlausra breytinga. Ef við sjáum ekki breytingu STRAX erum við oft sek um að gefast upp (hið sama á reyndar við um lífstílsbreytingar eins og þær leggja sig, en það er önnur saga!). Gefðu þessu 4-6 vikur og þá skaltu vænta árangurs.

SHARE