Val lífsins – Holl og góð lesning

Ég og konan mín Tóta keyptum nýjan bíl í desember. Við vorum búin að kaupa flugmiða frá Kaliforníu til Houston til þess að heimsækja fjölskyldu hennar yfir jólin. Þrátt fyrir að hafa þegar keypt flugmiðana ákváðum við að keyra til Texas á nýja bílnum. Við pökkuðum dótinu og keyrðum af stað og áttum yndislegan tíma í viku með ömmu og fjölskyldunni.

Við nutum tímans vel og áttum yndisleg jól í faðmi fjölskyldunnar og dvöldum eins lengi og við mögulega gátum. Við þurftum því að flýta okkur á leiðinni heim og keyrðum í einum rykk – annað keyrði á meðan hitt svaf og öfugt. Eftir að hafa keyrt í úrhellis rigningu í margar klukkustundir komum við loksins heim seint um kvöld. Við vorum þreytt og þurftum að komast í heita sturtu og mjúkt rúm.
Mér leið samt eins og við þyrftum að taka allt úr bílnum þetta kvöld, jafnvel þótt við værum úrvinda af þreytu. Tóta vildi þó komast í góða sturtu og beint í rúmið svo við ákváðum að bíða og taka úr bílnum um morguninn.

Klukkan sjö morgunin eftir vöknuðum við endurnærð og tilbúin að taka úr bílnum. Þegar við opnuðum dyrnar var enginn bíll á stæðinu! Við litum hvort á annað og litum aftur á innkeyrsluna og svo á hvort annað aftur. Síðan spurði Tóta þessarar dásamlegu spurningar: „Hvar lagðir þú bílnum eiginlega?“

Hlæjandi svaraði ég: „Nú bara hérna í innkeyrslunni.“ Þrátt fyrir að við vissum alveg hvar við höfðum lagt bílnum gengum við samt út og vonuðum að kannski hefði bíllinn sjálfur með tilstilli galdra keyrt sjálfur út úr bílastæðinu og lagt við gangstéttina. En hann hafði ekki gert það.

Frekar gáttuð hringdum við í lögregluna og létum taka niður skýrslu til þess að hægt væri að kveikja á hátæknibúnaði í bílnum sem skráði staðsetningu hans. Til þess að vera öruggur hringdi ég líka í fyrirtækið sem sér um að virkja búnaðinn og finna biílinn. Þeir sannfærðu mig um að þeir hefðu 98% endurheimtuhlutfall innan tveggja tíma.

Eftir tvo tíma hringdi ég aftur og spurði: „hvar er bíllinn minn?“

„Við höfum ekki fundið hann ennþá, en við erum með 94% endurheimtuhlutfall innan fjögurra tíma.“

Tveir tímar til viðbótar liðu og ég hringdi aftur og spurði: „hvar er bílinn minn?“

Aftur svöruðu þeir: „við höfum ekki fundið hann ennþá en við erum með 90% endurheimtu hlutfall hvað varðar að finna bílinn innan 8 tíma.“

Á þessum tímapunkti sagði ég við hann í símann: „hlutfallið ykkar skiptir mig engu máli þegar ég er í lágu prósentunni, þannig að þið megið hringja í mig þegar þið finnið hann.“

Síðar þennan dag sá ég auglýsingu í sjónvarpinu þar sem spurt var: „Myndir þú ekki vilja eiga þennan bíl í innkeyrslunni þinni?“

Ég svaraði sjónvarpinu: „Jú svo sannarlega! Ég átti einn svona í gær.“

Eftir því sem leið á daginn varð Tóta sífellt áhyggjufyllri enda fór hún að muna hvað hafði verið í bílnum – brúðkaups myndaalbúmið okkar, óbætanlegar fjölskyldumyndir frá fyrri kynslóðum, föt, allur myndavélabúnaðurinn okkar, veskið mitt og kortin, bara svona til að nefna sumt! Þetta voru kannski ekki allra nauðsynlegustu hlutirnir til að lifa af, en þeir virtust mjög mikilvægir á þessum tímapunkti.

Stressuð og pirruð spurði Tóta mig: „Hvernig getur þú grínast þegar öllum þessum verðmætu hlutum og glænýja bílnum okkar hefur verið stolið?“

Ég leit á hana og sagði, „Elskan mín, við getum búið við það að bílnum hafi verið stolið og við alveg brjáluð yfir því, eða við getum búið við það að bílnum hafi verið stolið og verið hamingjusöm.
Hvort sem við veljum þá var bílnum stolið. Ég trúi því virkilega að viðhorf okkar og skap er val og núna vel ég að vera hamingjusamur.“

Fimm dögum síðar fannst bíllinn, tómur og skemmdir á honum upp á 500 þúsund krónur. Ég fór með hann í viðgerð og var glaður að við myndum fá hann innan viku.

Við lok þeirrar viku skilaði ég bílaleigubílnum og sótti bílinn okkar. Ég var spenntur og feginn að hafa fengið bílinn okkar aftur. Sú gleði varði þó stutt. Á leiðinni heim klessti ég aftan á annan bíl rétt hjá heimilinu okkar. Bíllinn sem ég keyrði á var alveg óskemmdur en okkar skemmdist mikið – aðrar 500þúsund krónur í viðgerðir og aftur að díla við tryggingafélagið.

Mér tókst að keyra bílinn heim en þegar ég fór svo út úr bílnum heima til að kanna skemmdirnar sá ég að það var sprungið á vinstra framhjólinu.

Þar sem ég stóð í innkeyrslunni og horfði á bílinn, brjálaður við sjálfan mig yfir að hafa keyrt á hinn bílinn kom Tóta heim. Hún gekk til mín, leit á bílinn og síðan á mig. Hún sá að ég var að refsa sjálfum mér í huganum, setti arminn utan um mig og sagði: „Ástin mín, við getum verið með ónýtan bíl og alveg brjáluð yfir því, eða við getum verið með ónýtan bíl og verið hamingjusöm. Hvort sem við veljum er bílinn ónýtur, þannig að við skulum velja að vera hamingjusöm.“

Ég gaf eftir og sprakk úr hlátri. Við fórum inn og áttum yndislegt kvöld saman.

Eftir Bob Harris

SHARE