Rakstur getur haft nokkra hvimleiða fylgikvilla ef ekki er vandað til verks. Rauðar bólur, inngróin hár og útbrot eru eitthvað sem enginn vill skarta, hvorki á andliti eða leggjum. Þessi atriði er gott að hafa í huga þegar rakvélin er brúkuð.
1. Gott er að hita húðina fyrir rakstur. Ef þú rakar þig í sturtunni er gott að gera það í lokin, ef ekki skaltu leggja heitan þvottapoka á svæðið í nokkrar mínútur fyrir rakstur. Hitinn mýkir hárin og opnar húðina, þannig að raksturinn verður auðveldari og heppnast betur.
2. Notaðu vel beitt rakvélarblað og passaðu upp á að það sé ekki orðið gamalt. Bitlaust blað getur orsakað bæði útbrot, bólur og skurði.
3. Gættu þess að raka alltaf í sömu átt og hárin vaxa. Rakstur á móti hárvexti er ein helsta ástæðan fyrir inngrónum hárum.
4. Til þess að koma í veg fyrir rauðar bólur eftir rakstur er gott að skrúbba svæðin sem þú rakar reglulega með kornskrúbbi tvisvar í viku.
5. Eftir rakstur er gott að kæla húðina snögglega með köldu vatni, þannig lokast húðin og minni líkur verða á kláða og pirringi.
6. Að loknum rakstri skaltu þurrka svæðið varlega með mjúku handklæði. Gott er að nota barnapúður á húðina þegar hún er orðið alveg þurr eða milt og lyktarlítið húðkrem.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.