Chiafræ hafa þann merkilega eiginleika að halda manni söddum í langan tíma. Ég er ein af þeim sem er alltaf svöng. 10 mínútum eftir máltíð er ég komin með nefið inn í ísskáp. Eða lúkuna á kaf í Bingókúlupokann. Ef mér tekst hins vegar að troða góðum slatta af chiafræjum í matinn minn þá leiði ég vart hugann að mat. Eða þið vitið – talsvert minna en venjulega.
Þessi búðingur þarf að dvelja í ísskáp í að minnsta kosti þrjá klukkutíma áður en át á sér stað. Mér finnst þess vegna afskaplega þægilegt að skella í eina krukku á kvöldin sem ég get svo svolgrað í mig á núll einni morguninn eftir.
Ekkert vera að mikla fyrir ykkur að það þurfi að útbúa þetta kvöldið áður. Framkvæmdin tekur styttri tíma en slæm tannburstun. Ég lofa.
1 og ¼ bolli af létt kókosmjólk/möndlumjólk/léttmjólk (ókei, hvaða mjólk sem er)
2 matskeiðar hlynsýróp
½ teskeið vanilla extract
½ bolli chiafræ
Hrærið þessu vel saman í hæfilega stóra krukku og stingið inn í ísskáp. Morguninn eftir má svo skreyta búðinginn. Jarðaber, bananar, sýróp, Nutella, hnetusmjör – já, ég leyfi ykkur að ráða.
Tengdar greinar:
Kiwi og Chia smoothie – Uppskrift
Jarðaberjasulta með chia fræjum
Ómótstæðilega ,,hollur” súkkulaðibúðingur
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.