Þessi vanillukaka er æðislega girnileg og kemur auðvitað úr smiðju Allskonar:
Þessi kaka er ótrúlega einföld og fljótleg. Hún er langbest þegar hún er köld og hægt að bera hana fram með berjum og ávöxtum, þeyttum rjóma eða vanillukremi eða heitri karamellusósu.
Vanillukaka
- 125 gr smjör
- 4 eggjarauður
- 140 gr flórsykur
- 1 vanillustöng, fræin
- 1 msk vatn
- 120 gr hveiti
- 5 dl mjólk
- 4 eggjahvítur
- 3 dropar sítrónusafi eða edik
Byrjaðu á að hita ofninn í 160°C.
Bræddu smjörið í potti og láttu kólna á meðan þú byrjar á deiginu.
Þeyttu saman flórsykrinum, vatninu, innvolsinu úr 1 vanillustöng og eggjarauðunum þar til er orðið ljóst og létt. Sigtaðu þá hveitið út í og blandaðu vel saman við. Blandaðu nú bráðna smjörinu vel saman við.
Hitaðu mjólkina örlítið (um líkamshita) og hrærðu vandlega saman við deigið.
Þeyttu eggjahvíturnar með smávegis sítrónusafa eða ediki, þar til myndar létta toppa. Passaðu þig að yfirþeyta þær ekki, þá verða þær grófar og vondar á bragðið. Blandaðu nú eggjahvítunum út í deigið, ekki hræra mikið, þær eiga að fljóta ofan á deiginu en ekki blandast alveg saman við.
Smyrðu 20-22cm form að innan og helltu deiginu þar í.
Bakaðu í 60 mínútur við 160°C.
Láttu kólna vel áður en þú berð fram. Njóttu vel!
Endilega smellið einu like-i á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.