Samkvæmt frétt á DV.is lenti Helena Ósk Ívarsdóttir í mjög óskemmtilegri reynslu á laugardagskvöld. Hún var úti að skemmta sér með fjölskyldunni sinni og einhver hefur ákveðið að gefa henni nauðgunarlyf út í drykkinn hennar.
Hér er færslan sem Helena setti á Facebook um málið:
Á laugardaginn ákváðum við fjölskyldan að fara skemmta okkur og við skelltum okkur öll saman á Duus á Striksball, við sátum öll saman við eitt borð nánast allan tíman sem ég man eftir að hafa verið þarna inni. Einhvernvegin tókst samt einhverri virkilega aumkunarverðri sál að setja nauðgunarlyf í drykkinn minn. Áhrif þess virkuðu þannig á mig að ég sljóvgandi fyrst niður, gat ekki stigið almennilega í fæturna og varð alveg máttlaus. Fljótlega fékk ég miklar aukaverkanir sem komu fram í gríðarlegum ranghugmyndum, ofsjónum, ofsareiði, pirring, eirðaleysi og geðtruflunum. Ég man ekkert eftir því sem gerðist á þessum tíma en það tók u.þ.b. 24 tíma að losa efnið úr líkamanum, ég þurfti róandi og mikla hvíld til að ná mér. – vill taka það fram að ég var látin blása á lögreglustöðinni um nóttina og mældist 0.3% í mér, þannig með réttu hefði ég geta keyrt heim. Annað, samviskan nagar mig því ég veit ég sagði virkilega ljóta hluti við fólk og var vond við marga sem áttu það ekki skilið, ef ég kom illa fram við einhvern sem er að lesa þetta þá bið ég þig innilegrar afsökunar – þetta var aldrei ég að tala. Ég þakka hins vegar fyrir að ekki fór verr – sem hefði auðveldlega geta gerst ef ekki hefði verið fyrir allt yndislega fólkið sem hjálpaði mér. Ég hef sjaldan séð það jafn vel hvað ég á sterka og magnaða foreldra, kærasta, ættingja og vini sem gerðu allt fyrir mig. Ég ákvað að deila þessu í dag í von um að vera öðrum víti til varnaðar. Það tekur örskamma stund að smeygja þessu eitri í drykkinn þinn þrátt fyrir að þú sért umkringd fjölskyldu og vinum á rólegum stað. Passið drykkina ykkar í kvöld og passið hvort annað! Því miður er samfélagið orðið þannig í dag að við getum aldrei verið örugg. Farið varlega inní nýja árið elsku vinir og njótið kvöldsins með þeim sem ykkur þykir vænt um x