Ásthildur Björt er tveggja barna móðir, á eiginmann og býr í Grafarvogi. Hún er 32 ára og dætur hennar eru 8 árs og 1 árs. Hún er bara þessi venjulega nútímamamma. Hún er með fallegt bros og það er eitthvað við nærveru hennar sem róar mann niður og kemur manni á jörðina. Á fyrstu árum ævi sinnar lenti hún Ásthildur í reynslu sem fæst okkar höfum upplifað og hefur markað hennar líf að miklu leyti, þangað til hún horfðist í augu við þessa fortíðardrauga og sneri við þeim bakinu. Við Ásthildur settumst niður á dögunum, með sitthvorn kaffibollann í hönd og ræddum um það sem mótaði hennar æsku og hennar líf þessi fyrstu ár ævi hennar. Við ræðum skömmina, uppgjörið og hlutverk hennar í dag.
Ásthildur er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó í Breiðholti fyrstu 11 árin í lífi sínu. Á þeim tíma bjuggu foreldrar hennar enn saman og á hún tvö systkini. Þegar hún var svo orðin 11 ára flutti hún í Hafnarfjörðinn og þegar hún var 14 ára flutti hún erlendis. Við byrjum á því að tala um æskuna og þau ár sem áttu eftir að móta framhaldið:
Var misnotuð af syni dagmömmunnar
„Ég á margar góðar minningar frá æskunni og við höfðum það bara gott við fjölskyldan,“ segir Ásthildur en hún á samt slæmar minningar frá þessum tíma líka: „Ég var hjá dagmömmu frá 3-6 ára aldurs og við vorum þar öll þrjú systkinin, hjá þessari sömu dagmömmu,“ segir Ásthildur en sonur dagmömmunnar, þroskaskertur drengur, misnotaði Ásthildi kynferðislega í öll þessi ár sem hún var hjá konunni en hann er sjö árum eldri en hún.
„Þetta var ekki bara einhver
læknisleikur heldur var þetta
miklu grófara en það.“
Drengurinn fékk að hafa Ásthildi útaf fyrir sig, læsti hana inni í herbergi þar sem hann „lék“ sér með hana, tímunum saman. „Minningarnar eru mikið til bara myndir og ég man auðvitað ekki mikið frá því ég var 3 ára, en ég á mjög margar minningar frá því þegar ég var svona 4, 5 og 6 ára. Ég man eftir fötum, dóti á gluggakistum, gardínum og tölvu sem voru í herberginu hans,“ segir Ásthildur og bætir við að hún, sem barn, hafi litið á hann sem vin sinn því hann lék við hana og litaði með henni en svo hafi verið allt hitt! „Þetta var ekki bara einhver læknisleikur heldur var þetta miklu grófara en það.“
- Ásthildur 3 ára
Er meira reið við dagmömmuna en drenginn
Drengurinn var mikið í því að slá Ásthildi gullhamra og sagði henni oft og iðulega að hún væri svo falleg, góð, skemmtileg og uppáhaldið hans. Ásthildur segir að drengurinn hafi mikið verið í hestunum og oft í sveit og hafi þess vegna oft verið hestalykt af honum og enn þann dag í dag eigi hún mjög erfitt með að finna lykt af hestum eða fólki í hestamennsku. Vegna þess að drengurinn er þroskaskertur þá segist Ásthildur ekki geta verið mjög reið út í hann, heldur sé hún meira reið út í móður hans, sem var með hana í sinni umsjá.
„Ég man enn hvað
það var sárt og
ég fór að gráta“
„Hún veit að hann er þroskaskertur og hefði átt að vita betur en að leyfa drengnum að loka mig inni í langan tíma,“ segir Ásthildur en er ekki sannfærð um að dagmamman hafi vitað af því sem á gekk bakvið luktar dyr barnaherbergisins. „Ég man eftir einu skipti þar sem ég og drengurinn vorum að lita og hann lemur á fingurnar á mér með leikfangastraujárni. Ég man enn hvað það var sárt og ég fór að gráta en þegar mamma hans kom inn sagði drengurinn að ég væri að ljúga og ég væri bara ímyndunarveik. Mamma hans, sem oft var mjög hvöss, tók strax undir það og kallaði mig líka ímyndunarveika. Ég fann fyrir sársaukanum í hendinni og svo var ég kölluð ímyndunarveik.“
Varð ljóst að brotið hafði verið á henni mörgum árum seinna
Þetta varð til þess að Ásthildur hélt að það væri kannski bara eitthvað mikið að hjá henni sjálfri. Henni varð ekki ljóst að það hafði verið brotið á henni, kynferðislega, fyrr en mörgum árum seinna.
Þegar Ásthildur hóf grunnskólagönguna fór hún Seljaskóla, foreldrar hennar skildu og segir hún að þessi fyrstu ár í grunnskóla hafi einkennst af miklu rótleysi. Það var ekki fyrr en hún var svona 12 ára, þegar hún fór í kynfræðslu og lærði um kynlíf og fleira: „Þá varð mér það ljóst að það hafði verið brotið á mér og ég sagði mömmu frá þessu.“
Þær mæðgurnar fóru til lögreglunnar og lögreglan mælti með því að þær myndu ekki kæra því bæði væri málið fyrnt og svo hefði drengurinn líka verið undir lögaldri. Lögreglan mælti með því að móðir Ásthildar myndi frekar leita að aðstoð fyrir stúlkuna sem þær svo reyndu að gera. „Við fórum til barnageðlæknis í Hafnarfirði og hann sat á móti mér, hálfbrosandi, og fór svo strax að spyrja mig spurninga eins og „Hvar kom hann við þig?“ og „Hvað gerði hann við þig?“. Ég svaraði eins og ég gat og grét svo bara og grét og gat ekki svarað þessum spurningum. Ég fór ekki til hans aftur.“
„Þá varð mér það ljóst
að brotið hafði verið á
mér og ég sagði
mömmu frá þessu.“
Eftir þetta segir Ásthildur að hún og fjölskyldan hafi ekki mikið talað um þetta og það hafi örugglega verið auðveldara fyrir alla að láta bara eins og þetta hafi ekki gerst: „Ég gerði það sjálf. Í langan tíma hugsaði ég, svo þetta væri ekki svona sárt, að ég hafi bara viljað þetta og þetta hafi bara verið „læknisleikur“ sem þetta var sko alls ekki! Þegar ég leitaði til Stígamóta á sínum tíma þá sögðu þeir sem ég talaði við þar, að þetta geti bara flokkast sem nauðgun, þetta var það gróft. Þegar meðferðin þar var orðin erfið þá hætti ég þar.“
Á erfitt með að treysta öðrum fyrir börnum sínum
Áhrif þessarar reynslu Ásthildar hafa komið upp á yfirborðið í bæði skiptin sem hún hefur eignast börn, í þeirri mynd að hún verður mjög kvíðin, þunglynd og hrædd. „Ég treysti engum fyrir börnunum mínum og ég bara hreinlega get ekki sent þau til dagmömmu,“ segir hún og segir að fólk sé oft á tíðum hissa á því hversu mikið hún er á móti því að hennar börn fari til dagmömmu.
„Ég hugsaði svo ljótt
til sjálfrar mín og að ég
hafi bara viljað þetta“
Ásthildur fór í svokallað áfallastreitumeðferð á Hvíta Bandinu og segir hún að það hafi breytt öllu. „Við fórum rosalega djúpt í þessa vinnu. Eitt af því segm ég gerði, sem var bara partur af því að lifa þetta af, var að gera mig að skrímslinu í þessu öllu. Ég hugsaði svo ljótt til sjálfrar mín og ég hafi bara viljað þetta og svo framvegis. Mér varð það svo ljóst að skömmun væri ekki mín, heldur liggur hún alveg hjá henni. Hún átti að passa mig.“
Konan sem um ræðir er enn starfandi sem dagmamma og segir Ásthildur að henni finnist hræðilegt til þess að hugsa að konan hafi starfað í öll þessi ár með drenginn á heimilinu. Ásthildur hringdi eitt sinn til lögreglu og þá komst hún að því að engin gögn séu til um það að hún og mamma hennar hafi komið þangað fyrir öllum þessum árum síðan.
Hún tók þá ákvörðun að hætta að lifa í skömm, sem er svo engan veginn hennar skömm að bera og segja sína sögu. Hún er stolt og flott kona sem sér vel um börnin sín og heimili. Hún ber höfuðið hátt og kýs að halda áfram og gera sína framtíð eins og hún vill hafa hana.
Vilt þú deila reynslu þinni með okkur? Sendu þá línu á kidda@hun.is
Tengdar greinar:
Bjó á heimili með barnaníðingi – Bjargarleysi viðkvæmrar veru í nútíma samfélagi
„Ég held ég hafi alltaf þjáðst af kvíða“
„Fyrir hverju ertu eiginlega með kvíða?“ – Hugrakkur maður segir okkur reynslu sína
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.