Védís Vantída Guðmundsdóttir byrjaði að læra á blokkflautu aðeins 4 ára gömul. Védís og systir hennar, Rósa Guðmundsdóttir eru báðar tónlistarmenn og Rósa hefur verið að semja sína eigin tónlist í mörg ár.
“Pabbi var duglegur að spila fyrir mig og systur mína tónstiga þegar við vorum kornungar, strax þegar við komum af spítalanum.” Segir Védís, en hún byrjaði svo að spila á þverflautu 8 ára gömul, hún tók tónlistarnámið meðal annars hjá Ásthildi Haraldsdóttur og Martial Nardeau ásamt því að vera í námi í París og taka Master í Performance studies í London.
Stefnan er að gefa út plötu einn daginn
“Ég hef verið að kenna í Tónlistarskóla Vestmannaeyja á þverflautu, píanó og saxófón í nokkur ár núna ásamt því að koma fram við ýmis tækifæri. Einnig hef ég verið að semja mína eigin tónlist bæði svona hugljúfar píanómelódíur og lög sem ég sem á gítar og syng. Ég vil gera meira af því, því að stefnan og viljinn er að gefa út plötu einn daginn”
Rósa Guðmunds
Rósu Guðmundsdóttur kannast margir íslendingar við en hún sá um skemmtistaðinn Spotlight á sínum tíma og stofnaði fyrsta almannatengsla fyrirtækið hér á landi. Rósa var með sjónvarpsþátt á Skjá Einum og var sterkur talsmaður samkynhneigðra meðal annars. Rósa byrjaði í klassísku tónlistarnámi en ákvað að fara sinn eigin veg og hellti sér út í popptónlistina. Á síðustu árum hefur hún þó tekið það í sínar hendur að æfa sig mikið í klassískri tónlist eins og við fáum að sjá í myndbandi þeirra systra.
Rósa býr í New York í dag og hefur búið þar með hléum síðustu 15 árin. Hún vinnur við tónlist í New York sem ætti ekki að koma neinum á óvart en undanfarið hefur hún verið að snúa sér mikið að leiklist og finnur sig vel þar.
Rósa hefur samið sína eigin tónlist í mörg ár en Védís byrjaði að semja fyrir 2 árum. Systurnar héldu saman tónleika síðustu jól þar sem þær fluttu frumsamið efni, þar frumfluttu þær lagið “What i never had” sem þær sömdu saman síðasta sumar. Lagið er það fyrsta sem þær systur semja saman:
“What I never had er fyrsta lagið sem við semjum saman og það tók svo stuttan tíma að við erum klárlega að fara að gera meira af því. Verst er að hún býr í NY og ég hitti hana alltof sjaldan.” Segir Védís
Hér sjáum við þær systur flytja lögin Love in the springtime og What I never had. Ég fæ bara gæsahúð að hlusta á þennan flutning, þær eru svo sannarlega hæfileikaríkar þessar systur!
[youtube width=”600″ height=”325″ video_id=”8T0dyC-ydOU”]
[youtube width=”600″ height=”325″ video_id=”J1kGQcxvvsg”]