Að líta í eigin barm og horfast í augu við eigin fordóma er án efa með því erfiðara sem við manneskjurnar gerum.
Að koma auga á eigin fordóma krefst þess að búa yfir ákveðnum þroska og hafa auðmýkt til að gangast við þeim.
Ég til dæmis hef átt mjög erfitt með að horfast í augu við eigin fordóma í garð langvinns sjúkdóms sem ég var greind með fyrir 4 árum síðan.
Fyrir 4 árum síðan kom ég frá Edinborg eftir að hafa verið á ferðalagi þar með dóttur minni að rápa í búðir og njóta. Ég hef alltaf verið með viðkvæmt stoðkerfi og hafði í 10 ár haldið mér gangandi með aðstoð kírópraktors. Ég hafði fengið brjósklos í hálsliði og alla tíð eftir það þurft hjálp hnykkjara reglulega til að rétta mig og draga úr verkjum.
Þannig að þegar ég kem úr þessari Edinborgarferð algerlega að drepast í skrokknum og svo kvalin að ég gat varla gengið, var ég fullviss um að kíróinn minn myndi leysa vandann en viti menn ekkert skánaði og mín fór til læknis.
Læknirinn minn skoðaði mig og kvað upp dóm VEFJAGIGT ég neitaði bara pent að taka við þessari ruslagreiningu en þáði sprautu í mjöðm til að lina verkina. Þetta var fyrir 4 árum síðan og hafa komið tímabil þar sem ég er slæm og þar sem ég er betri en ekki þar sem ég er góð.
Svo tekur lífið óvænta sveiflu síðasta sumar og mín klessukeyrir sig alveg í verkjum og þreytu… Mjög óeðlilegri þreytu, ég stóð ekki undir sjálfri mér, hvað þá lífinu og verkirnir nístu inn að beini.
Ég, grenjandi í uppgjöf, fór til læknisins og hann sagði vefjagigt og ég frekar fúl yfir þessu samþykki að fara í Þraut, þar eru jú sérfræðingar á sviði vefjagigtar. Sem sagt gigtarlæknir, sálfræðingur, sjúkraliði og hjúkka…. Allt mikið fagfólk.
Greining Þrautar var svo VEFJAGIGT og skoraði kella hátt 17 af 18 þrýstipunktum voru aumir viðkomu.
Ég ákvað að þiggja endurhæfingu hjá Þraut sem felst í fræðslu á sjúkdómnum og leiðum til að læra að lifa með honum. Já og í mínu tilfelli að takast á við eigin fordóma og ná sátt við að vera með langvinnan sjúkdóm sem veldur því að geta mín er ekki sú sama og áður og mismikil milli daga. Þá daga sem getan er mikil þarf ég að vanda mig við að gera ekki of mikið því þá er ég að ræna af mér getu fyrir næsta eða næstu daga.
Ekki spennandi að samþykkja þetta en nauðsyn ef ég kýs að skapa mér lífsgæði.
Ég er búin að uppgvötva að fordómar í garð Vefjagigtar eru miklir og þörf er á að opna umræðuna og tala opinberlega og skammlaust um sjúkdóminn.
Eins og með svo margt annað er best að byrja á að líta í eigin barm og þess vegna opinbera ég hér mína eigin fordóma og játa að ég hef gert lítið úr fólki með vefjagigt og sagt því að fara bara að hreyfa sig.
Hreyfing er mikilvægur liður í að skapa góð lífsgæði en þetta er ekki svo einfalt að hreyfing ein og sér reddi málunum…
Nei það veit ég í dag eftir þá fræðslu sem ég hef fengið í endurhæfingunni hjá Þraut og ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa ratað þangað.
Ég skora á alla að fræðast um þennan sjúkdóm og taka þátt í að eyða fordómum í samfélaginu.
Ég er ennþá sama Stínan bara með minni getu en alveg jafn skemmtileg 😉
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!