Haustið hefur alltaf verið mín uppáhaldsárstíð. Ég elska litadýrðina sem móðir jörð bíður upp á og svala loftið sem fylgir því að það er að kólna.
Í dag elska ég ennþá haustið en það er mér erfitt þar sem ég er með vefjagigt, haustið þýðir að verkir versna og þreyta eykst.
Ekki það að ég ætli aðð vera að væla eitthvað en þetta er staðreynd sem við vefjagigtarsjúklingar þekkjum. Nú dreg ég fram snúningslakið svo ég geti snúið mér á nóttunni án þess að missa mig í mjaðmarverkjum, Þarf að passa mig að gera það sem ég veit að er gott fyrir mig eins og hæfilega hreyfingu daglega, taka djúpslökun, borða reglulega og hollt, passa upp á svefninn minn og alls ekki eyða allri orkunni í húsverk.
Ég get alveg látið húsverkin eiga sig upp á vissu marki en þarf stöðugt að vera meðvituð um allt hitt.
Ég hef verið svo lánsöm að í sumar hef ég verið ágæt af þessari leiðindar vefjagigt svo ég er þakklát fyrir það en ég finn að með auknum kulda og öllum þessum lægðum þá fer vefjan á fullt og verkirnir eftir því.
Ég er þannig gerð að ég nota eins lítið af verkjalyfjum og ég get, nýti frekar ofantaldar leiðir. Fyrir mig er djúpslökun nauðsynleg og að hreyfa mig mátulega, þá daga sem ég er verst þá leyfi ég mér að vera góð við mig og hvíli mig ef ég þarf, ég er svo heppinn að ég fann nuddara sem fer vel með vefjuna svo ég fer reglulega í nudd.
Þetta er langvinnur og leiðinlegur sjúkdómur sem er enn að mæta fordómum og fólk skilur ekki enda sjást verkir ekki utan á manni né andleg líðan. Vefjagigtin er bæði líkamleg og andleg þess vegna er mikilvægt að sinna sér líkamlega og andlega.
Svo heyrir maður oft að þetta sé kvennsjúkdómur, miðaldra kellingar sem nenna ekki að vinna. Það er aldeilis ekki satt því karlmenn sleppa ekki við sjúkdóminn og flest okkar stundum vinnu.
Ég er reyndar svo heppinn að ég stýri mínum vinnutíma en hef líka helgað mig því að bæta lífskjör fólks með þeim aðferðum sem hafa virkað best fyrir mig.
Ég er ótrúlega þakklát fyrir að maðurinn minn og börnin mín sem öll eru orðin fullorðinn hafa fræðst um vefjuna og sýna ástandi mínu fullan skilning. Það er ótrúlega mikilvægt að nánustu aðstandendur skilji þennan sjúkdóm.
Fræðsla kemur í veg fyrir fordóma og það er sko til fullt af fræðsluefni.
Áfram við …… Hugsum vel um okkur !
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!