Flest höfum við einhverntímann heyrt talað um kvíðaköst. Vitaskuld könnumst við öll við að vera áhyggjufull, stressuð og kvíðin og það er ósköp eðlilegt að vera kvíðinn af og til, það eru allir stundum kvíðnir og það er ekkert til að skammast sín fyrir. Við vitum að það er ekki notaleg tilfinning að kvíða fyrir hlutum, við getum verið kvíðin fyrir prófi, atvinnuviðtali eða ræðunni sem við erum á leið að halda, það er bara eðlilegt að finna fyrir smá kvíða en mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að tilfinningarnar sem fylgja ofsakvíða eru af allt annarri styrkleikagráðu en þessi týpíski kvíði sem allir finna stundum fyrir. Tilfinningarnar sem fylgja kvíðakasti eru oft svo yfirþyrmandi og hræðilegar að viðkomandi er viss um að hann sé að deyja, fá hjartaáfall, verða geðveikur eða á leið að gera sig að algjöru fífli. Það er þó að sjálfsögðu lítil hætta á slíkum afleiðingum en tilfinningarnar eru raunverulegar og það má ekki gera lítið úr þeim.
Rannsóknir hafa sýnt að um 10.000 íslendinga líða af þessum sjúkdómi ár hvert. Þessi sjúkdómur er algengari hjá konum en körlum og getur byrjað hjá fólki á hvaða aldri sem er. Það eru ekki allir sem átta sig á að vandamálið er andlegt en ekki líkamlegt vegna þess að líkamlegu kvillarnir sem fylgja kvíðaköstum eru oft miklir. Þú getur fengið rosalega í magann, ælt og verið mjög óglatt, orðið dofinn í höndunum og átt erfitt með að anda, sem lýsir sér þannig að viðkomandi fær verki fyrir brjóstið.
Hver eru einkenni kvíðakasta/ofsakvíða?
Hraður hjartsláttur
Brjóstsviði
Skjálfti eða titringur
Niðurgangur
Óraunveruleikakennd
Munnþurrkur
Tilfinning fyrir því að geta ekki safnað hugsunum sínum saman eða geta ekki talað
Þörf fyrir að flýja
Ótti við að deyja
Hita- eða kuldatilfinning
Svimi
Ógleði
Öndunarerfiðleikar
Doði í höndum
Tilfinning um að maður sé að missa sjónar á veruleikanum
Feigðartilfinning
Ótti við að missa sjálfsstjórn, missa vitið eða verða sér til skammar
Kvíðakast getur komið alveg upp úr þurru og stundum áttar fólk sig ekki á af hverju það fékk kastið. Ég fékk mitt fyrsta kvíðakast um daginn, þá hafði ég verið mjög veik í 2 daga, hafði fengið svæsin ofnæmisviðbrögð við lyfjum sem ég hafði fengið og vissi ekki af hverju ég var dofin í öllum líkamanum. Ég ákvað að leita til læknis þar sem ég var send beint upp á bráðamóttöku, á leiðinni þangað fann ég að ég átti erfitt með andardrátt, mér leið eins og einhver væri að þrýsta á brjóstið á mér, ég fór að ofanda og leið mjög illa, ég sagði við kærastann minn “ókey annaðhvort er ég að fá hjartaáfall eða ég er að fá kvíðakast í fyrsta skiptið” Mér fannst ótrúlegt að ég væri að fá kvíðakast þar sem mér fannst ég ekki hafa ástæðu andlega til þess að vera kvíðin, en auðvitað var ég innst inni kvíðin þar sem ég hafði ekki enn fengið að vita af hverju ég hafði þessi ofnæmiseinkenni, ég hélt bara að ég væri að verða lömuð eða eitthvað.
Ég hef kynnt mér kvíðaköst mjög vel þar sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sálfræði og öllu sem henni tengist. Ég sat einu sinni námskeið í hugrænni atferlismeðferð svo að ég er meðvituð um það að þetta er ekki hættulegt og gengur yfir, eftir að ég var sett í hjartalínurit var ég viss um það að þetta væri kvíðakast en ekki hjartaáfall og þá fór ég að róast niður, andaði djúpt og á endanum gekk það yfir þó að ofnæmiseinkennin hafi tekið lengri tíma að renna af mér. Ég er þó ekki haldin sjúkdómnum ofsakvíða heldur er líklegt að þetta hafi bara verið þessi algengi óeðlilegi kvíði sem flestir upplifa einhverntímann á ævinni. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég upplifi þetta og vona ég að það komi ekki fyrir aftur á næstunni. Mér fannst þetta ótrúlegt því að ég hef verið mun hræddari og í mun erfiðari aðstöðu í lífinu en þarna og samt ekki upplifað þessi viðbrögð.
Það er mjög algengt þegar fólk upplifir kvíðakast í fyrsta skiptið að það hafi áhyggjur af því að fá annað kast og áhyggjurnar yfir því að fá annað kast geta komið af stað öðru kvíðakasti. Fólk þarf ekki að þjást af ofsakvíða þó að það fái kvíðaköst nokkrum sinnum yfir ævina það telst heldur til óeðlilegs kvíða. Það eru mjög margir sem fá kvíðakast einhverntímann yfir ævina og ósköp venjulegt fólk getur skyndilega orðið heltekið af geðveikislegum, óraunhæfnum ótta.
Fyrir þá sem haldnir eru sjúkdómnum er mikilvægt að átta sig á eftirfarandi atriðum.
1. Mundu að þótt tilfinningar þínar og einkenni séu ógnvekjandi er þér ekki hætta búin.
2. Áttaðu þig á því að Það sem þú ert að upplifa er ekki annað en ýkt líkamleg viðbrögð við streitu.
3. Ekki streitast á móti tilfinningum þínum eða óska þess að þær hverfi. Eftir því sem þú ert staðráðnari í að horfast í augu við þær, þeim mun veikari verða þær.
4. Ekki auka á uppnám þitt með því að hugsa um það sem “gæti” gerst. Ef þú stendur þig að því að hugsa “hvað ef…?”, skaltu svara með því að hugsa “og hvað með það?”.
5. Einbeittu þér að stað og stund. Taktu eftir því sem raunverulega er að gerast í stað þess að hugsa um hvað gæti gerst.
6. Reyndu að meta ótta þinn á skalanum 1-10 og fylgstu með því hvernig hann rénar og færist í aukana. Taktu eftir því að óttinn nær ekki hæstu stigum nema í örfáar sekúndur í senn.
7. Þegar þú stendur þig að því að hugsa um óttann skaltu forðast “hvað ef” hugsanir. Einbeittu þér að einföldum verkefnum í staðinn, svo sem eins og að telja niður frá hundrað í þriggja eininga skrefum (100, 97, 94…).
8. Taktu eftir því að óttinn fer að dvína þegar þú hættir að hugsa ógnvekjandi hugsanir.
9. Þegar hræðslan færist yfir þig skaltu vera við henni búin og sætta þig við hana. Bíddu og leyfðu skelfingunni að ganga yfir í stað þess að reyna að komast undan henni.
10. Vertu stolt/ur yfir framförum þínum og hugsaðu um hversu vel þér mun líða þegar allt er afstaðið.
11. Leitaðu þér hjálpar á Geðdeild Landspítalans þar er til dæmis hægt að fara á námskeið eða samtalsmeðferð.
Það er mikilvægt fyrir aðstandendur og vini að átta sig á að ekki er um vesældóm að ræða heldur óeðlilegt eða sjúklegt ástand er þarfnast viðeigandi úrlausnar.
Leitið upplýsingar um kvíðann og bjóðið fram stuðning
Hlustið á lýsingar manneskjunnar á kvíðanum og afleiðingum hans og hvernig hann bregst við þeim
Heimildir voru fengnar af gedhjalp.is, persona.is, hsu.is, Vísindavefnum og frá ýmsum námskeiðum, reynslu vina og kunningja og persónulegri reynslu.