Kristín Ýr hleypur fyrir Einstök börn í Reykjavíkurmaraþoninu og má í mesta lagi vera í klukkutíma til að ná millilandaflugi. Nýkomin úr hjólaferð um Suður-Frakkland.
„Ég vil gefa til baka, eins mikið og ég get, og þess vegna læt mig hafa það að hlaupa tíu kílómetra, þó ég hafi aldrei gert það áður,“ segir Kristín Ýr Gunnarsdóttir sem hleypur til styrktar Einstökum börnum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Dóttir Kristínar, sem er rúmlega tveggja ára, greindist með litningagalla sem heitir Williams heilkenni þegar hún var 13 mánaða, og hafa Einstök börn veitt fjölskyldunni mikinn stuðning. „Þau hafa meðal annars hjálpað okkur að komast í samband við foreldra barna með sömu fötlun úti í heimi. Það skiptir ótrúlega miklu máli,“ útskýrir Kristín.
Kom af fjöllum
„Ég hef tekið þátt í tveimur fimm kílómetra hlaupum á síðustu vikum, Miðnæturhlaupinu og Víðavangshlaupi, og það er í fyrsta skipti sem ég hleyp eitthvað. Þannig þetta verður algjör frumraun í ágúst.“ En það er ekki nóg með að um frumraun verði að ræða heldur má frumraunin í mesta lagi taka klukkutíma. Ástæðan er ekki brjálæðislegt keppnisskap Kristínar heldur arfaslakir skipulagshæfileikar. Hún á nefnilega flug til útlanda fjórum klukkutímum eftir ræsingu hlaupsins.
„Þegar ég skráði mig í þetta hlaup þá hélt ég að það væri síðustu helgina í ágúst, þó allir hlæi að mér núna og segi að ég hefði mátt vita að það væri sama dag og Menningarnótt. Ég vissi nefnilega alveg að ég væri að fara til útlanda þann dag. Það var ekki fyrr en mágkona mín, sem er að fara með mér út, hringdi í mig til að benda mér á að það væri búið að heita á mig í hlaupi sem ég gæti alls ekki hlaupið í, að ég áttaði mig á mistökunum. Ég kom þá algjörlega af fjöllum,“ segir Kristín og skellir upp úr.
Lætur þetta ganga upp
Fyrstu viðbrögð Kristínar voru að sjálfsögðu að ætla að hætta við hlaupið og var hún farin að klóra sér í hausnum yfir því hvað yrði þá um peningana sem hún var þegar búin að safna. „Svo fór ég að skoða flugmiðann betur og sá að flugið er klukkan rúmlega eitt en hlaupið er ræst hálf tíu. Ég ætla að reikna með að það verði ekki meira en tíu mínútna seinkun á ræsingu og þá ætti þetta alveg að sleppa. Ég bara hleyp bara af stað, í gegnum markið, út í bíl og bruna út á flugvöll. Flestir taka andköf og segja þetta ekki raunhæft en aðrir segja að þetta sé einfaldlega týpískt ég. En það er búið að heita á mig og verð bara að gera þetta. Ég læt þetta ganga upp,“ segir hún ákveðin en með kímni í röddinni. „Svo skipti ég bara um föt í bílnum á leiðinni út á flugvöll og tek kattarþvott á Reykjanesbrautinni. Ef það kemur í fréttum að það sjáist í beran bossa á Reykjanesbrautinni þá er það bara ég.“
Hjólaði um Suður-Frakkland
En þó Kristín hafi ekki mikið verið að hlaupa þá hjólar hún eins og vindurinn og er einmitt nýkomin heim frá Suður-Frakklandi þar sem hún hjólaði um 800 kílómetra ásamt manninum sínum, frá Genf til Cannes. „Hlaupin reyna vissulega meira á en þegar ég hjólaði í Frakklandi þá byggði ég upp mikið þol. Þetta var mjög stórt og mikið ævintýri, við villtumst svolítið í fjallgörðum og þolið kom mikið þar. Ég varð svo „húkt“ á því að hjóla úti að ég keypti mér racerhjól úti og flutti með mér heim, og ég hjóla alveg annan hvern dag.“
Kristín segir þetta hafa verið algjöra draumaferð og mælir hiklaust með því að hjóla um Suður-Frakkland. „Þetta er auðveldara en fólk heldur. Fólk finnist þetta risaafrek en þetta er það ekki. Maður er ekki að keppa, maður hjólar bara eins hratt og maður getur og ef maður er þreyttur þá stoppar maður og fær sér bjór eða baguette. Það er enginn pressa. Maður tekur bara eitt stig í einu og allt í einu er maður búinn að hjóla ógeðslega mikið. Þetta er allavega í fyrsta skipti sem ég kem endurnærð frá útlöndum, því þetta er svo gott fyrir sálina.“
Mynd/Hari
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.