Ástsjúk kona sem, vitstola af hrifningu á karlmanni sem hún kynntist gegnum einkamálasíðu vestanhafs, var dregin nauðug viljug upp úr skorsteini á húsi mannsins nú á sunnudag.
Að sögn mannsins, sem vildi ekki láta nafns síns getið í samtali við bandaríska miðla, höfðu turtildúfurnar farið á sex stefnumót saman og allt hafði virst með felldu í fyrstu. Svo sleit maðurinn samskiptunum og í kjölfarið tók boltinn að rúlla. Eðlilega runnu þó tvær grímur á manninn þegar konan klifraði upp á húsþakið og reyndi að troða sér niður skorsteininn í þeim eina tilgangi að láta sig falla niður á arinngólfið í íbúðinni.
Ég … það virtist vera allt í lagi með konuna. Þangað til hún klifraði upp á þakið mitt fyrir tveimur vikum síðan. Ég vona bara að hún fái hjálp. Ég vona að hún láti netið líka algerlega vera.
Það var valinkunnur hópur þrekinna slökkviliðsmanna sem fékk það flókna og áhættusama verkefni í hendur að brjóta upp múrinn með slaghömrum áður en þeir helltu sápulegi ofan í skorsteininn. Var skælandi konan loks hífð og tosuð alla leið upp aftur, sótsvört og niðurlægð og með fullri meðvitund í ofanálag.
Þessa mynd tók lögreglan af konunni í skorsteininum meðan á björgunaraðgerðum stóð
Konan, sem ber nafnið Genoveva Nunez-Figueroa og er 23 ára gömul, var handtekin á staðnum og ákærð fyrir tilraun til innbrots og fyrir hafa reynt að villa á sér heimildir við handtöku.
Það voru nágrannar mannsins sem kölluðu til lögreglu og slökkvilið, sem hóf handa við björgunaraðgerðir en þegar slökkviliðið bar að garði, hafði Genoveva setið föst í skorsteininum í rúma tvo klukkutíma. Meintur ástmaður var hins vegar ekki heima meðan á öllu stóð.
Slökkviliðið að störfum við húsið í Thousand Oaks, Kaliforníu
Engum sögum fer af núverandi heilsufari konunnar, en hún var eðlilega lemstruð eftir sápuvolkið í skorsteininum og flemtri slegin eftir aðfarir slökkviliðsmanna, sem hömruðu á skorsteininum utanverðum í talsverða stund áður en þeir náðu að hella uppþvottalegi yfir líkama konunnar.
Maðurinn sagðist í viðtali við bandaríska miðilinn KTLA vilja vara fólk við að hleypa lítt kunnugum inn á heimili sitt.
… maður ætti að vera varkár og gefa sér nægan tíma áður en maður býður nýjum kunningjum heim, því stundum neitar fólk einfaldlega að fara aftur.
Líkar þér þessi grein? Smelltu á Like takkann og deildu gleðinni.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.