Verndum börnin fyrir geislum sólar

Fimm góð ráð:

  • kornabörn á alltaf að hafa í skugga
  • forðist sólina yfir hádaginn frá kl. 12-15
  • leitið í skuggann
  • léttur klæðnaður og höfuðfat gefur góða vörn
  • notið sólarvörn með miklum styrkleika á börn.

Sól og húðkrabbamein

Flest höfum við á tilfinningunni að það sé bæði gott og heilsusamlegt að vera úti við á sumrin. Það er líka alveg rétt – en allt er best í hófi. Sólargeislarnir geta nefnilega verið hættulegir húðinni. Í sólarljósinu eru svonefndir útfjólubláir geislar sem geta unnið frumum húðarinnar mein og mesta hættan er ef við sólbrennum. Margt smátt gerir eitt stórt og ef við sólbrennum oft getur afleiðingin orðið húðkrabbamein. Því er best að forðast að sólbrenna. Yfirleitt læknast sólbruni af sjálfu sér á nokkrum dögum en hann getur birst síðar sem húðkrabbamein eða sortuæxli út frá fæðingarblettum.

Tíðni húðkrabbameins hefur tvöfaldast í heiminum á síðustu áratugum. Á Íslandi er húðkrabbamein algengast allra krabbameina. Aðalástæða aukinnar tíðni er of mikil sól, hvort sem fólk ástundar sólböð eða heldur sig af öðrum ástæðum mikið utandyra í sólinni. Okkur er eðlilegt að verða sólbrún. Húðin framleiðir brúnt litarefni þegar sólin skín á hana og ver hana fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólar. En yfir veturinn lýsist húðin aftur. Þess vegna þurfum við að gæta okkar sérstaklega á vorsólinni. Sólbrún húð veitir enga tryggingu gegn því að maður fái húðkrabbamein síðar á ævinni.

Sjá einnig: Húð unglinga og sjálfsmynd

Hvers vegna er mikilvægt að vernda börnin fyrir sólinni?

Ung börn þola sólina sérstaklega illa og þurfa mestrar verndar við. Þau ættu alls ekki að vera óvarin úti í sterku sólskini. Stálpaðri börn eru oft 5-7 sinnum lengur úti í sólinni en fullorðnir. Það er sárt að sólbrenna en maður finnur ekki fyrir því fyrr en eftir á. Þetta á einkum við um börn sem hlaupa um og leika sér í sólinni. Þau finna kannski fyrir léttum sviða í húðinni en vindurinn kælir húðina og ef þau eru í vatni getur það skapað þá tilfinningu að húðin sé ekki eins heit og raunin er. Sum börn eru líka viðkvæmari fyrir sólinni en önnur og geta fengið útbrot, svonefnt sólarexem. Þess vegna þurfum við að gæta að börnum okkar þegar sólin skín. Ekki einungis til að forðast óþægindi af sólbruna heldur til að afstýra mesta áhættuþætti húðkrabbameins.

Hver eru hættumerkin?

  • Hiti. Húðin er heit þegar þreifað er á henni, líka þótt maður reyni að
    kæla hana með vatni.
  • Roði.
  • Eymsli.
  • Við finnum fyrir léttum sviða í húðinni.

Erfitt getur reynst að greina roðann í fyrstu. Hann verður ekki greinilegur fyrr en eftir dálitla stund. Hægt er að þrýsta á húðina með fingurgómi, til dæmis á öxlunum. Þegar fingrinum er lyft verður svæðið hvítt í fyrstu en roðnar fljótt aftur. Þá er kominn tími til að hylja húðina.

Forvarnir

  • Börn með mjög ljóst hörund geta sólbrunnið á mjög skömmum tíma í sólinni.
  • Kornabörn eiga alls ekki að vera óvarin í sólskini.
  • Sé barnið ekki óvarið í sól er sjaldnast þörf á sólarvörn. En viljir þú
    vernda það fyrir endurkasti frá ljósum sandi eða yfirborði sjávar er rétt
    að smyrja dálitlu sólarkremi á kinnar, nef og handarbök.
  • Stærri börn er hægt að verja með því að bera á þau sólarvörn.
  • Hálf lúka af sólvarnarkremi (u.þ.b. 20 ml) nægir yfirleitt til að verja allan
    líkama barnsins.
  • Hafið hugfast að vörnin fer auðveldlega af húðinni. Ekki bara þegar barnið
    fer í bað heldur einnig ef það svitnar eða þurrkar sér með handklæði. Þá
    þarf að smyrja það aftur.
  • Þunguðum konum ber að auðsýna varúð og láta ekki sólina baka sig um of. Ef húðin hitnar mikið eykst blóðrásin til hennar og það getur komið niður á
    fóstrinu, einkum ef húð konunnar ofhitnar.

Hvað þarf ég að vita um sólarvörn?

Tvær aðferðir eru notaðar til að sýna styrkleika sólarvarnarkrema. Önnur er bandarísk og nefnist SunProtectionFactor, skammstafað SPF, hin er evrópsk. Munurinn á þeim er fólginn í skilgreiningum sem valda því að bandarísku styrkleikatölurnar eru á að giska helmingi hærri en þær evrópsku. Það þýðir að bandarísk sólarvörn með styrkleikann 8 samsvarar evrópskri sólarvörn með styrkleikann 4. Fólk þarf því að hafa á hreinu hvor mælikvarðinn gildir um sólarvörnina sem það notar. Sértu í vafa geturðu spurt þann sem selur þér sólarolíuna.

Sjá einnig: Húðkrabbamein, ljósabekkir og sól

Áhrif sólarvarnarkrema dofna með tímanum og eru orðin lítil eftir eina til tvær klukkustundir. Hafið hugfast að þótt skýjað sé ná 30-50% útfjólubláu geislanna til jarðar og það getur nægt til þess að sólbrenna.

Hvað ber að gera eftir að maður sólbrennur?

Sólbruni er bruni sem sólin framkallar. Yfirleitt er um að ræða 1. stigs bruna en í stöku tilvikum getur hann verið 2. stigs bruni.

Ráð við sólbruna

Til að lina kvalirnar er hægt að kæla brennda svæðið með u.þ.b. 25°C heitu vatni í hálfa til eina klukkustund. Gætið þess að minna þarf til þess að kæla húð barna. Hægt er að nota hlaup sem dregur úr sársauka og ef húðin er mjög rauð er hægt að smyrja hana með 1% hýdrókortíson kremi en þetta fæst hvort tveggja án lyfseðils í lyfjabúðum. Leitið læknis ef húðin verður mjög rauð og sársaukinn er mikill. Einnig ef blöðrur taka að myndast og ef kornabörn eða yngri börn sólbrenna.

 

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

 

SHARE